Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Snúið að leggja sæstreng

18.04.2012 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjög snúið yrði að leggja rafsæstreng frá Íslandi til Bretlandseyja, eða meginlands Evrópu, vegna þess hve djúpt hann myndi liggja á löngum kafla.

Þetta segir Unnur Stella Guðmundsdóttir, verkfræðingur hjá Energy net í Danmörku og sérfræðingur í strengjum.  Stengurinn yrði sá lengsti í heimi, 1.000 til 1.500 kílómetra langur.

Unnur sagði í Morgunútvarpinu á Rás tvö í mörgun að þessi strengur yrði á allt að 1200 metra dýpi. Aðeinn einn annar strengur væri á meira dýpi, 1600 metrum, og lægi hann milli Sardiníu og meginlands Ítalíu. Hann lægi hins vegar ekki svona djúpt á löngum kafla eins og væntanlegur Íslandsstrengur. Hann yrði á 50 til 100 kílómetra kafla á 1200 metra dýpi. Það skapaði mikinn vanda.

Miðað við þá tækni sem fyrir hendi væri varðandi sjávarstrengi og strengjafræði, þá hefði dýptin mikil áhrif á það hvort hann héldi eða eyðilegðist þegar verið væri að leggja hann.  Álagið væri mikið og strengurinn mjög þungur, þannig að fara þyrfti mjög nákvæmlega í það hvernig hanna ætti strenginn til að hann þyldi að vera lagður á þessu dýpi.