Janúar kostaði 43 milljónir á Akureyri
Það hefur vart farið fram hjá neinum á Norðurlandi að veturinn hefur verið afar snjóþungur. Þessum mikla snjó fylgir töluverður kostnaður. Á Akureyri er áætlað að 150 milljónum verði varið í snjómokstur í ár. Þar á bæ er þegar búið að nota stóran hluta af því fé sem átti að fara í að moka snjó á árinu en mokstur bara í janúar kostaði rúmlega 43 milljónir. Þá er fé sem ætlað er í mokstur á árinu víða á Norðurlandi komið vel fram úr áætlunum.
Mikill kostnaður
Í Dalvíkurbyggð er áætlaður kostnaður við snjómokstur 25,8 milljónir. Í Grýtubakkahreppi áætla þeir að eyða um átta milljónum og í Fjallabyggð 24 milljónum. Á öllum þessum stöðum er kostnaður við snjómokstur farinn fram úr áætlun fyrir árið 2020.
Verktakar muna vart annað eins
Verktakar og sveitarstjórnarfólk á Norðurlandi sem fréttastofa ræddi við í dag var sammála um að veturinn væri líklegast sá snjóþyngsti frá 1995. Ef litið er nær í tíma, skera tvö ár sig úr, 2014 og 2018. Snjór var töluvert mikill bæði þessi ár.
Jón Þórólfsson, verktaki sér um snjómokstur í Fnjóskadal. Þar hefur verið nóg að gera. „Þetta er óvenju langur kafli. Þetta er eiginlega orðnir þrír mánuðir sem er alveg bara non stop sko.Svo virkar ekki hérna stytting vinnuvikunnar, það kemur ekki inn á það,“ segir Jón.