Snjöll og áhugaverð nálgun á ævintýraformið

Mynd: Pixar / Pixar

Snjöll og áhugaverð nálgun á ævintýraformið

16.03.2020 - 08:48

Höfundar

Nýjasta teiknimynd úr smiðju Pixar, Onward eða Áfram, stenst ekki samanburð við bestu myndir sem þaðan hafa komið, en stendur þó höfðinu hærra en margt annað í kvikmyndahúsum, segir Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýnandi.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Höldum þá í annars konar ferðalag og snúum okkur að nýjustu teiknimyndinni úr smiðju Pixar og Disney: Áfram, eða Onward, leikstýrt af Dan Scanlon, sem segir sögu af tveimur bræðrum í örlagaríkri leit að töfrasteini. Sögusviðið er borgarsamfélag í líkingu við okkar eigin vestrænu siðmenningu, nema hvað, íbúarnir eru álfar og seiðkarlar, kentárar og mantíkórur, ljósálfar og tröll. Einu sinni var veröldin full af göldrum og ævintýrum, en sú tíð er löngu gleymd, og ævintýraverurnar hafa bælt niður sitt innra eðli. Kentárarnir keyra bíla, ljósálfarnir þjóta um á mótorhjólum, drekar eru orðnir húsum hæfir eins og hundar og galdrar virðast bara tilheyra bókum og hlutverkaspilum. Myndin minnir þannig nokkuð á Zootropolis sem kom út fyrir nokkrum árum, þar sem villidýrin höfðu sagt skilið við fyrra líferni til að búa í borgarsamfélagi, en að sjálfsögðu knýr fortíðin dyra og hið bælda snýr aftur með látum.

Í þessu tilviki eru það galdrarnir sem kvikna þegar aðalpersónurnar, bræðurnir Ívar og Barði, fá dularfulla gjöf frá föður þeirra, en hann lést þegar þeir Barði var smástrákur og Ívar enn í móðurkviði. Nú eru þeir báðir orðnir fullorðnir álfar og fá þar með galdraþulu í hendurnar sem gerir þeim kleift að kalla pabba sinn heim frá dauðum í einn sólarhring – og þar með mun langþráður draumur þeirra rætast, og sérstaklega Ívars, sem á engar minningar um pabba sinn. En þeir eru ekki nógu góðir að galdra og klúðra þulunni fyrst um sinn – pabbinn birtist bara hálfur og fylgir þeim aðeins frá mitti og niður í tær. Með lappirnar hans í eftirdragi þurfa bræðurnir að ganga í gegnum alls konar ævintýralegar þrautir til að ljúka þulunni áður en pabbi hverfur alfarið að sólarhring liðnum, svo þeir fái nú líka að hitta á honum efri hlutann.

Áfram er snjöll mynd með áhugaverða nálgun á ævintýraformið – að gera það hversdagslegt og óspennandi með því að taka burt allan galdur og færa ævintýrið inn í hefðbundið borgarsamfélag. En það er líka tvíeggja sverð, því þannig hverfa ákveðnir töfrar úr frásögninni fyrir áhorfendum. Jú, hversdagslegur ævintýraheimur býður upp á ýmsa brandara, en gerir líka að verkum að sagan er ansi lengi að komast í gang, því það þarf að útskýra svo margt og sannfæra svo marga um að töfrarnir séu raunverulegir. Eldri bróðirinn er kunnugur hefðum ævintýranna vegna þess að hann spilar svo mikið hlutverkaspil – og söguheimurinn sækir grimmt í veröld spilsins Drekar og dýflissur, Dungeons & Dragons – og í ljós kemur að spilið hans byggir á sannsögulegum atburðum og sagnfræðilegri þekkingu. En handritið verður líka stundum hnökrótt eins og hlutverkaspil geta orðið, því nýr leiðangur tekur við af þeim næsta, það þarf að finna þennan hlut til að ná fram þessu skrefi, og svo næsta hlut til að geta kastað þessum galdri – og myndin höktir þannig heillengi áfram áður en hún kemst virkilega á flug í síðari hlutanum, einmitt þegar ævintýrið nær yfirráðum.

Þrátt fyrir þessa galla í uppbyggingunni og handritinu, þá er samt alltaf nóg í gangi til að skemmta og heilla og eins og gjarnt er með Pixar-myndir er Áfram sannarlega með hjartað á réttum stað. Sorgin, föðurmissirinn og ástin á milli bræðranna er kjarni myndarinnar og sagan missir aldrei sjónar á því, þrátt fyrir allan hasarinn. Pabbinn er afkáralegur og í gamanhlutverki sem hálfur maður mestalla myndina, en þegar á hólminn er komið og uppgjör þeirra bræðra við sorgina á sér stað nær myndin alveg að kreista á manni hjartaræturnar. Áfram stenst kannski ekki samanburð við bestu Pixar-myndir, en stendur þó höfðinu hærra en margt annað í bíó, og tekst að viðhalda þeirri góðu hefð Pixar að ná reglulega vel til bæði yngri og eldri áhorfenda.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lífið er óútreiknanlegt

Kvikmyndir

Farsakennd fyllirísferð sem fjarar út þegar á líður

Kvikmyndir

Streitubíó með Adam Sandler

Kvikmyndir

Litrík upphafning á öllu því sem mætti kalla stelpulegt