Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Snjalltækin víki fyrir samtölum við börnin

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Snjalltækin víki fyrir samtölum við börnin

16.11.2018 - 18:51

Höfundar

Degi íslenskrar tungu var fagnað sérstaklega á Höfn í Hornafirði í dag. Þar var sérstakur nýyrðabanki opnaður á vefnum og hornfirskir krakkar eru strax farnir að leggja inn. Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar. Hann segir mikilvægt að foreldrar tali við börn sín frekar en að vera í snjalltækjum.

Fjöldi fólks var samankominn í Nýheimum á Hornafirði í dag til að fagna deginum á afmæli Jónasar Hallgrímssonar. Verðlaun kennd við skáldið hlaut Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenski málfræði, fyrir að verja íslenskuna með víðsýni og greina mun á eðlilegri og óeðlilegri þróun hennar.

„Ekkert er jafn mikilvægt og samtal við fullorðið fólk til að byggja upp auðugt málkerfi og styrka málkennd barna. Og þess vegna er stytting vinnutímans eitt af því mikilvægasta sem við gætum gert til að styrkja íslenskuna að því tilskyldu að foreldrar verji auknum frítíma ekki í sínum eigin snjalltækjum heldur til samveru og samtals við börnin sín,“ sagði Eiríkur. „Við megum ekki fara með málið eins og einhverja kristalskál sem gæti brotnað við minnstu snertingu. Við verðum að leyfa málinu að laga sig að þörfum samfélagsins en jafnframt að gæta þess að það breytist ekki of mikið. Þá slitnar þessi þráður sem menn telja svo mikilvægan við sögu og menningu fyrr á tímum.“

Verkefnið Skáld í skóla fékk viðurkenningu og mennta- og menningarmálaráðherra sagði frá nýju átaki sem nefnist Áfram íslenskan. Þá var opnaður nýyrðabanki þar sem Íslendingar geta nú skemmt sér á síðkvöldum. 

Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur hjá Árnastofnun, kynnti nýyrðabankann

„Almenningur getur sent inn nýyrði á vefnum. Farið inn á síðuna nyyrdi.arnastofnuna.is og skráð inn sjálft nýyrði og það getur líka sett inn athugasemdir við nýyrði sem aðrir hafa sett inn og látið álit sitt í ljós.

Og það er strax áhugi á þessu? Menn eru strax byrjaðir að dæla inn orðum?

Já, það eru komnir inn nokkrir tugir orða strax. Ég sé hérna öráþreitni, gjarnastjarna, lýðvistun. Eplakrumpa, kraftakría, hjóll,  baunakarl, snúbúi. Það á að vera einstaklingur af íslenskum uppruna sem flytur heim til Íslands frá útlöndum eftir að hafa verið langdvölum, jafnvel alla ævi, erlendis.“

Og krakkarnir á Hornafirði eru strax farnir að smíða ný orð.

„Ég kom með orðið lagaspotti og það er í staðinn fyrir playlist,“ segir Fanney Rut Guðmundsdóttir, ellefu ára. 

„Ég fann orðið ferðahljómur í staðinn fyrir ipod,“ segir Karen Hulda Finnsdóttir, ellefu ára.

„Það auðvitað streyma yfir okkur allskonar nýjungar bæði í tækni og á öllum sviðum og með þeim koma ný orð og við þurfum að geta talað um þetta á íslensku og það er mikilvægt að reyna að fá nýju íslensku orðin inn sem fyrst,“ segir Eiríkur.

„Ég fann orðið þumla í staðinn fyrir like og eiþumla í staðinn fyrir dislike,“ segir Arney Hauksdóttir, ellefu ára.