Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Snjalltækin mesta ógn ungmenna

15.08.2017 - 09:51
Mynd: Stocksnap / Pexels
Ekkert hefur haft jafn umfangsmikil áhrif á líðan og hegðun unglinga og barna eins og snjallsímanotkun. Snjalltækin eru jafnframt stærsta ógnin sem steðjað hefur að geðheilsu heillar kynslóðar. Þetta kemur fram í nýrri bók eftir sálfræðinginn Jean M. Twenge.

Með tilkomu snjallsíma og samfélagsmiðla verja unglingar og ungt fólk miklu meiri tíma eitt heima hjá sér, að sögn Gunnars Jóhannssonar, læknis. Hann var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og ræddi innihald bókar Jean M. Twenge. „Unglingar í dag fá seinna og jafnvel ekki bílpróf. Þeir fara minna út og atvinnuþátttakan er minni. Þeir drekka minna og eignast síður börn á unglingsárum. Við höfum fagnað því hér á Íslandi að það séu færri unglingamæður og drykkja en kannski voru það snjallsímarnir sem héldu fólki heima,“ segir hann.

Hættan af snjalltækjum raunveruleg

Gunnar segir að þegar snjallsímarnir komu fyrst á markað hafi foreldrar verið mjög áhyggjufullir vegna áhrifa þeirra á heilsu barna. „Þá var umtal og reynt að takmarka skjátímann. Það hefur verið sýnt fram á að þetta er mjög slæmt fyrir heilsu barna. Þó svo að þau séu ekki að drekka eins mikið og lenda í slysum þá er hættan af völdum snjalltækja mjög raunveruleg og það þarf að taka á þessum málum af alvöru.“

Sjálfstæði ungs fólks áður fyrr fólst í því að komast í burt frá foreldrunum. Það fór út til að hitta fólk og að vinna til að geta keypt bíl. Unga kynslóðin nýti tímann sinn öðruvísi og að stórum hluta í snjalltækjum.

Unglingar uppteknir af sjálfsmynd á samfélagsmiðlum

Í bókinni kemur fram að í Bandaríkjunum á tímabilinu 2007 til 2009 hafi hlutfall sjálfsvíga meðal barna og unglinga orðið hærra en hjá fullorðnum. Þá voru um 50 prósent ungmenna komin með snjallsíma. Í bókinni kemur jafnframt fram að öll skjávirkni unglinga tengist minnkandi hamingju. Á því séu ekki undantekningar. Gunnar segir að í starfi sínu á heilsugæslu hitti hann marga óhamingjusama unglinga. „Þau eru mjög upptekin af sjálfsmynd sinni á samfélagsmiðlum. Foreldrar tala um að hægt sé að taka á einelti í íþróttum og í skólanum en ekki á samfélagsmiðlum. Neteineltið stendur eftir,“ segir hann. Börnum finnst það óhugsandi að hætta á samfélagsmiðlum til að sleppa við einelti. „Þau geta ekki séð það fyrir sér að slökkva á Facebook eða Snapchat til að sleppa við þetta. Þetta er orðinn svo stór hluti af lífi fólks að það er erfitt að hætta.“

Ráðleggur foreldrum að setja mörk

Gunnar ráðleggur foreldrum að takmarka notkun barna á snjallsímatækjum. Til dæmis geti það valdið streitu og svefnleysi ef þau eru með síma með sér inni í svefnherbergi. „Við höfum ráðlagt að taka símann af þeim tveimur tímum fyrir svefninn. Þá er ekki stanslaus birta í augun og áreiti eða þau að skoða símana fram á nótt og geta lent í hverju sem er. Fyrir þann hóp sem er á þeim aldri að foreldrar geta sagt þeim fyrir er mjög mikilvægt að gefa þeim frí frá þessu áreiti.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir