Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Snilldargáfa þeirra var ekki ókeypis“

Mynd: RÚV / RÚV

„Snilldargáfa þeirra var ekki ókeypis“

10.11.2019 - 13:45

Höfundar

„Í mínum huga er þetta tímabil merkilegasti tíminn í sögu vísindanna, sá tími þar sem menn breyttu gjörsamlega þeirri sýn sem við höfum á heiminn,” segir Kári Stefánsson um fyrstu tuttugu og fimm ár síðustu aldar, en samskipti og átök helstu eðlisfræðinga þess tíma eru viðfangsefni bókarinnar Quantum eftir Manjit Kumar. Kári sagði frá bókinni í Lestinni á Rás 1 en þar fjallar fólk úr ólíkum áttum um bækur sem að mati þess varpa áhugaverðu eða mikilvægi ljósi á heiminn.

„Þetta er bók sem fjallar um eðlisfræði sem var unnin á fyrstu tuttugu og fimm árum síðustu aldar og eðlisfræðingana sem unnu þá vinnu. Hún fjallar mikið um Einstein, sem var mestur snillingur vísindamanna allra tíma. Sem starfsmaður á einkaleyfaskrifstofu í Sviss vorið 1905 skrifaði hann fjórar vísindagreinar sem hver um sig gjörbreytti sýn okkar á heiminn. Síðan fjallar hún um samskipti Einsteins við Niels Bohr og frægar deilur þeirra um skammtafræðina. Einnig koma við sögu fleiri vísindamenn sem voru allir saman kornungir menn og voru að breyta heiminum,” segir Kári um  Quantum.

„Þeir voru að gera stórkostlegar uppgötvanir um eðli heimsins, uppgötvanir sem svöruðu ótrúlega flóknum og erfiðum spurningum. En svörin gátu af sér enn flóknari og enn erfiðari spurningar - spurningar sem má vel vera að við getum aldrei svarað.“

Mynd með færslu
 Mynd: Paul Ehrenfest - Wikimedia Commons
Nils Bohr og Albert Einstein.

„Bókin lýsir alveg ótrúlegum samskiptum þessara ungu manna, sem voru mjög opnir og heiðarlegir gagnvart hver öðrum, á sama tíma og þeir voru í býsna harðri samkeppni hver við annan,” segir Kári og nefnir til að mynda hvernig fjölmiðlar lýstu deilum Einsteins og Bohr sem deilu gyðings og skandinava - þótt þeir hafa raunar báðir verið gyðingar. 

Kári segir bókina bæði vel skrifaða og skemmtilega, raunar lesist hún nánast eins og spennusaga um það hvernig ný heimssýn hafi mótast.

Þó að Kári hafi sjálfur starfað sem vísindamaður í um hálfa öld segist hann sjá ýmislegt í fari þessara ungu manna sem sé til fyrirmyndar. „Þessir menn eru slíkir risar sem vísindamenn að það þarf að vera töluvert hrokafullur til að líta á sig sem kollega sína. En mér finnst þeir hafa sett býsna gott fordæmi fyrir hvernig þeir unnu, hvernig þeir voru opnir um sína vinnu og unnu hver með öðrum, og í krafti samvinnunnar gerðu ótrúlegar uppgötvanir.”

„En þegar maður fer að horfa á þessa menn úr svolítilli fjarlægð og lesa um ævi þeirra þá er alveg ljóst að snilldargáfa þeirra var ekki ókeypis. Þeir borguðu sinn prís fyrir að vera öðruvísi en til þess að geta verið skapandi þarftu að vera öðruvísi, þú þarft að hugsa öðruvísi. Og þegar þú hugsar öðruvísi þá lendir þú sem einstaklingur stundum í erfiðleikum í samskiptum við annað fólk. Og það er alveg ljóst að þegar maður les um Albert Einstein til dæmis að honum var ekki sérstaklega auðvelt að mynda djúp tilfinningaleg tengsl við annað fólk.”