Sníkill í laxi þarf ekki súrefni

27.02.2020 - 06:45
Mynd með færslu
 Mynd: Flying Penguin - Wikimedia Commons
Vísindamenn við örverufræði í háskólanum í Oregonríki í Bandaríkjunum uppgötvuðu dýr sem þarf ekki súrefni til að lifa af. Dýrið er holdýr sem er sníkill í vefjum laxa. Dýrið stelur nauðsynlegum næringarefnum af laxinum í stað þess að innbyrða súrefni beint sjálft.

Stephen Atkinson, vísindamaður við háskólann í Oregon segir uppgötvunina stórkostlega, þó dýrið sé agnarsmátt. Dýrið er skylt marglyttum og kóral. Það hefur innan við tíu frumur, en er þó ekki einfrumungur á borð við bakteríur. 

„Þegar við ímyndum okkur dýr sjáum við fyrir okkur fjölfrumu skepnur sem þurfa súrefni til að lifa af," hefur CNN eftir Atkinson. Niðurstöður vísindamannanna sýni að í það minnsta eitt fjölfrumu-dýr hafi ekki það sem til þarf í erfðamengi sínu til að taka sjálft inn súrefni.

Fleiri furðudýr þarna úti

Dýrið býr til örsmáar hvítar blöðrur í vöðvum laxa. Þær skaða líklega ekki fiskinn, og hafa ekki áhrif á manneskjur að sögn vísindamannanna. Umhverfið inni í fisknum er að mestu án súrefnis. Því verður sníkillinn að anda án súrefnis til að lifa af. Dýrið hefur aðlagast með því að losa sig algerlega við hvatbera-erfðamengi. Hvatberar mynda orku úr fæðu í flestum lífverum. Vísindamennirnir eru ekki vissir um hvað sníkillinn notar í stað súrefnis. Atkinson telur að dýrið taki inn sameindir sem þegar hafa framleitt orku. 

Atkinson og félagar hans telja þetta síður en svo eina dýrið sem lifir án eigin inntöku súrefnis. Hann telur að fjöldi slíkra dýra eigi eftir að uppgötvast, og jafnvel einhver sem eru furðulegri en sníkillinn.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi