Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Sniðgangan nái aðeins til hernumdra svæða

18.09.2015 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv.is - Skjáskot
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að ef til vill hefði átt að útfæra ákvörðun meirihluta í borgarstjórnar um að borgin sniðgangi vörur frá Ísrael áður en hún var samþykkt. Þá hefði eflaust verið rétt að taka það skýrt fram að hún ætti við fyrirtæki á hernumdnum svæðum.

Dagur segir erlend viðbrögð koma sér nokkuð á óvart. Það hefði kannski verið rétt að taka það skýrt fram að sniðgangan næði ekki til ísraelskra fyrirtækja í heild, heldur til fyrirtækja á hernumdum svæðum. „Sérstaklega þegar maður sér viðbrögðin sem eru mjög sterk og ekki öll kannski byggð á því sem við vorum í raun og vera með í huga. Þá skal ég alveg viðurkenna að annaðhvort hefur þetta verið misskilið eða útfærslan hefði átt að liggja fyrir áður en málið kom til kasta borgarstjórnar,“ segir Dagur.

Hann segist ekki vita nákvæmlega hvenær útfærslan muni liggja fyrir en litið sé til nágrannalandanna. „Við erum að horfa til umræðunnar í Kaupmannahöfn og umræðu á öðrum Norðurlöndum þar sem þetta hefur töluvert verið rætt og það eru miklu fleiri en við sem höfum talað fyrir því að þegar landnemabyggðirnar og hernumdu svæðin eru annarsvegar og alþjóðasamfélagið hefur kannski fá ráð til að grípa þar inn í þá geti sniðganga verið friðsamleg aðgerð sem geti haft áhrif,“ segir Dagur.

Utanríkisráðuneytið segir ákvörðunina stangast á við lög
Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd af Ísraelsmönnum. Simon Wiesenthal-stofnunin birti nú síðdegis frétt á vef sínum þar sem hún ráðleggur gyðingum að ferðast ekki til Íslands og sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi segir að Ísraelsmenn fordæmi ákvörðunina harðlega. Þá hefur íslenska utanríkisráðuneytið sent frá sér yfirlýsinguna þar sem segir að ákvörðun borgarstjórnar sé ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og ekki heldur til marks um tengls Íslands og Ísraels. Jafnframt er hún ekki sögð samræmast lög.

Dagur er sammála að almennt bann gæti stangast á við lög og er tilbúin að ræða það við utanríkisráðuneytið. Ákörðun borgarstjórnar byggi þó á fimmtu grein innkaupastefnu Reykjavíkurborgar. Þar segi að ekki sé einungis horft til verðs við innkaup heldur einnig gæða, umhverfismála og mannréttindasjónarmiða. „Þannig að þarna er um það að ræða hjá okkur að ef vörur koma frá fyrirtækjum sem eru með starfsemi eða eru framleiddar inn á ólögglegum landtökubyggðum eða hernumdu svæðunum og tengjast þannig mannréttindabrotum að þá viljum við sniðganga þær,“ segir Dagur.

Tækifæri til að fara yfir grundvallarafstöðu borgarinnar
Dagur segist gjarnan vilja funda með sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi sem er væntanlegur hingað til lands í næsta mánuði um málið. „Já, ég held að það skipti bara mjög miklu máli að eiga samskipti og koma okkar sjónarmiðum um mannréttindi. Ekki bara sem borgaryfirvöld, heldur sem Íslendingar og ekki bara í málefnum Ísraels og Palestínu heldur alls staðar í heiminum. Ég sé það sem tækifæri þar sem hægt væri að fara yfir grundvallarafstöðu borgarinnar,“ segir Dagur.