Sniðganga innsetningu Trumps

epa05711505 Democratic Senator from New Jersey Corey Booker (L), Democratic Congressman from Georgia John Lewis (C), and Democratic Representation from Louisiana Cedric Richmond (R) prepare to testify against the nomination of Republican Senator from
 Mynd: EPA
Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn John Lewis varð í dag áttundi þingmaður Demókrata til að lýsa því yfir að hann myndi sniðganga innsetningu Donalds Trumps í embætti forseta. Lewis hafnar því að Trump sé lögmætur forseti og segir í viðtali í viðtalsþættinum Meet the Press, sem sýnt verður á sunnudag, að hann telji Rússa hafa liðkað fyrir kosningu hans.

Lewis gat sér fyrst orð sem baráttumaður fyrir réttindum þeldökkra. Hann var kosinn á þing árið 1987 og segist alltaf hafi mætt á innsetningarathöfn forsetans síðan þá. Nú geti hann það hins vegar ekki. Mun fleiri mæta þó á innsetningarathöfnina. Þeirra á meðal eru fyrrverandi forsetarnir George W. Bush, Bill Clinton og Jimmy Carter auk Hillaryar Clinton sem beið lægri hlut fyrir Trump í kosningunum í nóvember.

Gríðarlegur öryggisviðbúnaður er í Washington vegna innsetningarathafnarinnar næstkomandi föstudag. Búist er við að 700 til 900 þúsund manns verði í höfuðborginni til að fylgjast með innsetningunni. 28 þúsund manns vinna við öryggisgæslu. 

Jeh Charles Johnson, yfirmaður heimavarna í Bandaríkjunum, sagði í dag að settir verði upp vegatálmar til að koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn geti notað bíla til að drepa fólk. Hann vísaði til ódæðisverkanna í Nice síðasta sumar og Berlín skömmu fyrir jól. 86 létust í fyrri árásinni en tólf í þeirri síðari. Johnson tók þó fram að yfirvöld hefðu engar upplýsingar um að nein samtök eða einstaklingar hygðust gera árás á fólk við innsetningarathöfnina.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi