Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sneri við dómi í máli móður Ingu Sæland

31.05.2019 - 14:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Landsréttur sneri í dag við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hafði sýknað íslenska ríkið af kröfu Sigríðar Sæland Jónsdóttur í máli sem sneri að útborgun lífeyris í ársbyrjun 2017. Sigríður er móðir Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, og stóð flokkurinn að málsókninni en málið var rekið í nafni Sigríðar.

Málið snerist um lagabreytingu sem gerð var í árslok 2016. Við breytinguna féll fyrir mistök út ákvæði sem heimilaði að skerða lífeyri eldri borgara vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þrátt fyrir þetta skerti Tryggingastofnun greiðslur lífeyrisþega um næstu mánaðamót og lögunum var svo breytt afturvirkt til að heimila skerðinguna. Heildarskerðingin hjá öllum ellilífeyrisþegum landsins þessa tvo mánuði nam um fimm milljörðum króna.

Inga Sæland segir í færslu á Facebook að þetta sé mikill gleðidagur. „Trú mín á dómskerfið hefur vaxið til muna í dag. Landsréttur að sýna hversu mikils virði hann er varðandi aukið réttaröryggi okkar borgaranna.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV