Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Snarpur dúett í miðjum Ikea-draumnum

Mynd: RÚV / Kastljós

Snarpur dúett í miðjum Ikea-draumnum

31.01.2017 - 16:18

Höfundar

„Stórkostlega flott leiksýning,“ segja gagnrýnendur Kastljóss um leikritið Andaðu eftir Duncan Mcmillan, sem var frumsýnt í Iðnó um síðustu helgi. Hera Hilmarsdóttir og Þorvaldur Davíð Kristjánsson leika þar par sem stendur frammi fyrir spurningu sem sameinar stór og smá áhyggjuefni: eiga þau að eignast barn? „Leikurunum tekst að skapa ótrúlega mikla nánd sín á milli og eru trúverðug í þessu mikla verki,“ segir Hlín Agnarsdóttir.

Leikritið byrjar í miðju samtali, sem parið á augljóslega bágt með. „Manni finnst eins og maður sé að njósna og hlera um það. Þau tala sjálf um að það sé eins og fólk farið að fylgjast með. Leikskáldið nýtir hversagdlega aðstæðurnar til að draga upp stórar heimspekilegar spurningar sem gætu virkað banal en heppnast mjög vel,“ segir Snæbjörn Brynjarsson.

Hlín Agnarsdóttir segir að þetta sé vel gert hjá höfundi verksins, sérstaklega þegar litið er til ungs aldurs hans, en það hefur farið sigurför um nokkur lönd. Hera Hilmarsdóttir þýðir verkið á íslensku auk þess að fara með annað burðarhlutverkið. Gagnrýnendur Kastljóss segja að hún leysi það vel af hendi.

Leiksýningin er svo til umbúðalaus; það er engin leikmynd, bara ein lýsing og varla búningar til að tala um. „Við fáum aðallega að sjá samband þeirra, sérstaklega gagnvart þessari stóru spurningu,“ segir Hlín. „Það er mikill léttir að sjá bara tvo leikara standa fyrir framan okkur og fara með þennan texta í maraþon-sýningu.“

„Maður sér ekki mikið af þessu upp á síðkastið. Íslenskt leikhús hefur verið mjög sjónrænt þessa dagana, þarna er þetta alveg umbúðalaust,“ segir Snæbjörn.