Smit greindist á Heilsugæslunni Firði

24.03.2020 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
COVID-19 smit greindist á Heilsugæslustöðinni Firði í Hafnarfirði í gær. Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, greindi frá þessu á blaðamannafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann sagði að þar hefði sannast gildi þeirra ráðstafana sem hafa verið gerðar til að geta lágmarkað áhrif smits. „Þar er ákveðinn hópur farinn heim en annar á staðnum. Þeir sem eru farnir heim en eru ekki sýktir vinna heima.“

Starfsemi Heilsugæslunnar Fjarðar heldur því áfram. Ekki kom fram í máli Óskars hjá hverjum smitið hefði greinst eða hvernig. 

„Við munum opna heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ. Það hefur enginn veikst, smitast, af þeim sem greindist fyrir tveimur vikum,“ sagði Óskar. 

Mikið álag hefur verið á heilsugæsluna vegna beiðna um vottorð. Mörg þeirra eru vegna COVID-19 faraldursins en líka af öðrum ástæðum. Óskar bað fólk að treysta hverju öðru. Hann sagði mikið um að beðið væri um veikindavottorð sem fólk gæti framvísað á vinnustað sínum vegna veikinda. Hann hvatti til þess að fyrirtæki væru ekki að krefjast vottorða vegna skammvinnra veikinda. „Reynum að forðast svona skriffinnsku því við erum að sinna sjúklingum og við viljum gera það. Við höfum séð að fólk hefur tekið tillit til þess og svona beiðnum fækkar. Við erum þakklát fyrir það.“

Óskar sagði unnið að því að breyta kerfinu þannig að fólk gæti sótt vottorð sín inn á heilsuvera.is. Nú þegar er hægt að sækja vottorð um sóttkví með þeim hætti.

Mynd: RÚV / RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi