Helgi Björnsson er alinn upp á Vestfjörðum á sjöunda áratug síðustu aldar þegar aðstæður voru aðrar í þjóðfélaginu en í dag. Þá var ekki hægt að æða út í búð eftir leikföngum eins og í dag og algengt að börn björguðu sér um dægrastyttingu með því að smíða sér sjálf leikföng eða nýta hluti úr umhverfinu, en það var þannig sem Helgi eignaðist sinn fyrsta gítar.
Í kringum tíu ára aldurinn bjó hann til gítar úr loki af málningardós, spýtu og bólsturhnöppum til að stilla. „Svo negldi ég lokið á spýtuna og þetta leit út eins og banjó,“ segir Helgi. Gítarinn málaði hann síðan gulan og þá var allt klárt til að halda halda tónleika: „Svo stóð ég með þetta einn fyrir framan spegilinn og skrifborðslampann beindan að mér.“ Helgi gekk fljótlega eftir það til liðs við gaggó-hljómsveitirnar Berb og Skítkast en sú síðarnefnda var pönkhljómsveit sem varð ekki langlíf.