Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Smálánafyrirtæki stofnar nýtt félag á Íslandi

12.11.2019 - 10:27
úr umfjöllun Kveiks um smálán
Úr umfjöllun Kveiks um smálán Mynd: DR
Smálánafyrirtækið Kredia Group hefur stofnað nýtt fyrirtæki, Brea ehf, á Íslandi sem er til heimilis við Katrínartún í Reykjavík. Tilgangur félagsins er meðal annars útlánastarfsemi. Stjórnarmenn eru Ondrej Smakal og Vladimír Smakal sem báðir eru búsettir í Tékklandi.

Í stofngögnum félagsins kemur fram að Kredia Group sé skráð til heimilis við Kanadatorg, eða Canada Square, í Lundúnum.  Þar sést einnig að nýja félagið var stofnað þann 4. október. 

Fram hefur komið að starfsemi smálánafyrirtækja sé í eigu Ecommerce 2020 en framkvæmdastjóri þess er áðurnefndur Ondrej Smakal. Fyrirtækið Almenn innheimta hefur séð um að  innheimta vanskilakröfur.  Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu í ágúst að Ecommerce hefði brotið íslensk lög með lánum sínum en fyrirtækið mótmælti því og taldi dönsk lög gilda um starfsemi sína enda væru öll félögin skráð þar.  Neytendastofa fór í framhaldinu þess á leit að lögbann yrði sett á Almenna innheimtu og forsvarsmann hennar vegna innheimtu smálána. 

Ráðherra neytendamála hefur lýst því yfir að hún vilji stöðva starfsemi smálánafyrirtækja og hefur lagt fram frumvarp sem á að koma í veg fyrir að fyrirtækin geti innheimt lán sem bera ólöglegan kostnað.

Ecommerce leggst í umsögn sinni gegn því að 3. grein frumvarpsins verði samþykkt en þar er kveðið á um að neytenda sé ekki skylt að greiða heildarlántökukostnað brjóti lánið gegn árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins segist styðja eflingu neytendaverndar heilshugar en ekki megi samþykkja ákvæði sem torveldi lögmæta lánastarfsemi.  Með því sé reitt of hátt til höggs.