Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Smálánafyrirtæki selja bókmenntaverk

14.04.2015 - 11:46
Málverk af rússneska rithöfuninum Fyodor Dostoyevsky eftir málarann Vasily Perov.
 Mynd: Wikimeda Commons
Margar helstu perlur sígildra bókmennta standa nú kaupendum til boða á smálánasíðunum kredia.is og smálán.is. Þar á meðal eru Glæpur og refsing, Hroki og hleypidómar, og játningar Ágústínusar kirkjuföður.

Bækurnar eru á rafrænu formi og hagstætt að kaupa tvær bækur á 5.500 krónur. Þeim fylgir líka smálán upp á 20.000 krónur. Það eina sem kaupandinn þarf að gera er að greiða fyrir bækurnar og endurgreiða lánið, innan þrjátíu daga. Bækurnar eru falla ekki undir skilmála um höfundaréttargreiðslur og kaupverðið er svipað því gjaldi sem fyrirtækin rukkuðu áður fyrir flýtiafgreiðslur á lánum.

Áfrýjunarnefnd neytendamála komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að flýtigjöldin væru ólögleg og neytendastofa hefur beitt Krediu og Smálán dagsektum fyrir að hlíta ekki úrskurðinum.

Gjaldið virðist svipað eða eins

Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri hjá Neytendastofu segir að það eigi eftir að skoða framkvæmdina þessu hjá smálánafyrirtækjunum. Það líti þó út fyrir að verið sé að rukka svipað eða sama gjald og í þeim málum sem stofnunin hefur áður skoðað, vegna árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Það þurfi að kanna hvort þetta falli undir lög um neytendalán og hvort að ástæða sé til fyrir stofunin aað fjalla um málið. Spurð hvort að fyrirtækin hafi farið á svig við lög með þessu segir Þórunn Anna að erfitt sé að segja til um það fyrir en stofnunin hafi skoðað málið.