
Smáhýsin: Mikilvægt að stutt sé í þjónustu
Áætlað er að koma smáhýsum fyrir á Veðurstofuhæð, við Eskihlíð og Guðrúnartún. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að íbúar í Hlíðum hafi lýst yfir óánægju með að smáhýsin eigi að vera í hverfinu. Þar sé fyrir Konukot og heimili fyrir karla í fíkniefnavanda við Miklubraut. Lögregla og sjúkralið séu tíðir gestir, segir í frétt Fréttablaðsins.
Ætla að finna staði sem henta
Heiða Björg segir að farið verði vel yfir allar umsagnir sem berast um breytingar á deiliskipulagi vegna smáhýsanna. „Við sáum fyrir okkur að reyna að koma fyrir tuttugu húsum víðs vegar um borgina en það hefur aðeins reynst flóknara en við héldum, sem er leiðinlegt en við erum ekkert af baki dottin með það. Við munum finna staðsetningar sem henta vel og helst í sátt og ró við íbúa og nágrenni,“ segir Heiða í samtali við fréttastofu.
Skoða staði allt upp að Ártúnshöfða
Heiða segir mikilvægt að heimilin sé staðsett þar sem stutt sé í þjónustu og almenningssamgöngur. „Við erum með teymi sem fer og heimsækir þetta fólk oft á dag, ef þess þarf, þannig að við höfum kosið að hafa þetta frekar miðsvæðis en við erum þó að skoða lóðir alveg upp á Ártúnshöfða.“
Horft er til reynslunnar frá Árósum í Danmörku og víðar varðandi smáhýsin. Heiða segir ljóst að það sé andstaða við þessa tegund búsetuúrræðis og því geti ef til vill reynst farsælla að bjóða upp á hefðbundnara húsnæði.
60 heimilislausir á biðlista
Slík smáhýsi eru á Granda í vesturbæ borgarinnar og segir Heiða að það hafi gengið upp og ofan, það hafi farið eftir íbúum hverju sinni. Sextíu manns eru á biðlista eftir slíkum úrræðum, sem Heiða segir að geti verið í slíkum smáhýsum, íbúðum eða íbúðakjörnum. „Það er okkar hlutverk að tryggja að allir geti búið einhvers staðar.“