Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Smábátasjómenn ósáttir við ráðherra

04.09.2014 - 23:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Sjávarútvegsráðherra spilar rússneska rúllettu með því að banna makrílveiðar með línu og handfærum frá og með morgundeginum. Þetta segir Óttar Már Ingvarsson formaður Kletts, félags smábátaeigenda á Norðausturlandi.

Fundað var um málið með Sigurði Inga Jóhannssyni, ráðherra í gærmorgun. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeiganda segir að ráðherra hafi gefið þær skýringar að nýlegt álit umboðsmanns Alþingis um úthlutun makrílkvótans og svo alþjóðasamningar komi í veg fyrir að þeir fái að veiða makrílinn. Óttar segir að margir félagar í Kletti hafi stundað makrílveiðar. „Við erum vægast sagt mjög ósáttir við ráðherra, við teljum að það sé allt of litlum afla ráðstafað til þessa flokks."

Smábátasjómenn stunda aðallega veiðar á grunnslóð. „Það skiptir miklu máli, því að við erum að stunda þessar veiðar með umhverfisvænum veiðarfærum. Þar fyrir utan tel ég að ráðherra sé að stunda rússneska rúllettu, vegna þess að makríllinn er hérna í ætisleit og hann er nú einmitt á þeim slóðum sem uppeldisstöðvar okkar helstu nytjastofna eru og hann er þarna bara að borða, bæði svif og ungviði. Þetta er í rauninni algjörlega ástæðulaust að takmarka þessar veiðar."