Smá smjör getur varla drepið neinn, eða hvað?

Mynd: RÚV / RÚV

Smá smjör getur varla drepið neinn, eða hvað?

04.12.2019 - 11:32
Tímarnir breytast og mennirnir með og nú er svo komið að Jafet Máni hefur ákveðið að vera vegan yfir jólin. Ákvörðun sem rennur ekki eins og smjör ofan í Helgu Margréti.

Í fjórða þætti jóladagatalsins Jólakortið baka samstarfsfélagarnir vegan smákökur með Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur. Það verður að segjast alveg eins og er að Helgu líst fremur illa á marengs úr kjúklingabaunasafa en hún er þó kurteis við gestgjafann. 

Uppskriftin hennar Guðrúnar Sóleyjar að sörum án allra dýraafurða er í raun sáraeinföld. 

Aquafaba - það er að segja, safinn af kjúklingabaunum úr einni dós. 
Ein teskeið vínsteinslyftiduft. 
Fjórar kúfaðar matskeiðar af flórsykri. 
Dl af hökkuðum möndlum

Safanum, lyftiduftinu og flórsykrinum er öllu þeytt saman í um það bil hálftíma. Þegar marengsinn er orðinn stífur borgar sig að þeyta hann enn lengur til að ná tilætluðum árangri. Fljótlega fer marengsinn að taka á sig ótrúlega mynd og það sem meira er, það er hægt að borða hann óbakaðan án þess að óttast hrámetið!
Þegar marengsinn er talinn fullþeyttur er hökkuðum möndlum blandað varlega við marengsinn með sleif. Þegar þetta er tilbúið er marengsinn settur í um það bil munnbitastærð á bökunarpappír og inn í ofn við 100 gráður í tvær klukkustundir. Best er að nota teskeiðar til að mæla munnbitastærðina, ekki munninn. 

Í vegan kremið fer smjörlíki hverskonar, 
matskeið kakóduft
uppáhelt kaffi, kalt
flórsykur að eigin ósk

Öllu þeytt saman og smakkað að vild. 

Kremið er sett á marengsbotnana þegar þeir hafa kólnað og það svo jafnað út með teskeið til að mynda svona smá kúpta kremhæð. Sörurnar fara síðan inn í frysti þar til allt er orðið mjög kalt. 

Suðusúkkulaði brætt yfir vatnsbaði og þegar það hefur kólnað aðeins er toppi frystu saranna dýpt í það. Kökurnar fara svo aftur í frysti og eru fljótlega tilbúnar til átu. 

Verði ykkur að góðu!

Fimmti þáttur Jólakortsins er á dagskrá spilarans og samfélagsmiðla RÚV núll klukkan 10 fimmtudagsmorguninn 5. desember. Ekki missa af honum. 

 

Tengdar fréttir

Löngu kominn tími til að skreyta

Slæmar fréttir á fyrsta degi aðventu