Slys í Reynisfjöru – maðurinn látinn

10.02.2016 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Maðurinn sem féll í sjóinn við Reynisfjöru í morgun er látinn. Hann var erlendur ferðamaður. Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi að hann hafi misst fótanna í flæðarmálinu og farið út með öldunni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út eftir að tilkynning barst um slysið ásamt björgunarsveitum frá Vík og Vestmannaeyjum. Ítrekað hefur verið fjallað um slysahættu í Reynisfjöru undanfarna daga eftir að myndir af erlendum ferðamönnum í háska voru birtar á samfélagsmiðlum.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, staðfesti í samtali við fréttastofu að maðurinn væri látinn.  

Banaslys varð í Reynisfjöru nú fyrir stundu þar sem erlendur ferðamaður missti fótanna í flæðarmálinu og fór út með ö...

Posted by Lögreglan á Suðurlandi on 10. febrúar 2016

Fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar að maðurinn hafi verið á ferðalagi með konu sinni. Sæmilegt veður var á slysstað en eftir því sem fréttastofa kemst næst var sjórinn úfinn. 

Sveinn Kristján sagði í samtali við fréttastofu í gær að Reynisfjara væri gott dæmi um ferðamannastað þar sem nauðsynlegt væri að hafa gæslumann á meðan ferðamenn væru þar.

Hann sagði að lögreglan hefði miklar áhyggjur af stöðunni í fjörunni enda væri hún einn vinsælasti áfangastaður ferðmanna. „Við létum útbúa betri skilti við gönguleiðina fyrir tveimur árum. Og svo var farið í það að afmarka bílastæðið betur með bandi þannig að fólk myndi frekar fara gönguleiðina inn með hlíðinni og fram hjá skiltinu. En það virðist ekki breyta því að fólk er að leika sér í flæðarmálinu og fara sér að voða,“ sagði Svein.

Fyrir ellefu árum lést bandarísk kona eftir að alda í Reynisfjöru hreif hana með sér. Í janúar 2013 kom leiðsögumaður til bjargar konu sem lá í flæðarmálinu og útfallið var að renna yfir hana. Þá lentu fjórir menn í bráðri lífshættu í september 2015 þegar stór alda hreif þá með sér.

Í júní fyrir tveimur árum féll maður í sjóinn við Reynisfjöru.  Hann barst með öldum að Reynisfjalli og þar uppi fjöru. Hann slapp ómeiddur frá slysinu.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi