Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Slúður að Viðreisn krefjist þess að Dagur víki

30.05.2018 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar segir það slúður að flokkurinn hafi sett fram ófrávíkjanlega kröfu um að ráðinn verði borgarstjóri í Reykjavík. Formlegar meirihlutaviðræður eru í Hafnarfirði en staðan er snúnari í Kópavogi.

Óformlegar meirihlutaviðræður Samfylkingarinnar, Vinstri Grænna, Pírata og Viðreisnar standa enn yfir í Reykjavík. Ítrekaðar fregnir af ófrávíkjanlegum kröfum Viðreisnar um að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar og núverandi borgarstjóri, víki úr borgarstjórarstóli eru rangar.

Pawel Bartozek, borgarfulltrúi Viðreisnar staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. „Þetta er ekki rétt, borgarstjórnarflokkur Viðreisnar hefur ekki verið að setja væntanlegum viðmælendum sínum neina afarkosti, hvorki varðandi skipan í einstök embætti eða málefni. Við erum að fara í viðræður og við munum ekki gefa út yfirlýsingar um okkar samningsstöðu í fjölmiðlum hvað það varðar, né heldur er það góður bragur á því að fara í slíkar viðræður með því að setja viðmælendum einhvers konar afarkosti. Þetta er slúður, já.“

Ekki náðist í oddvita flokkanna við gerð fréttarinnar. Takist flokkunum ekki að mynda meirihluta er ljóst að afar snúin staða er komin upp. Píratar, Samfylkingin og Sósíalistar hafa gefið út að þeir muni ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum. Raunar útilokaði Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins meirihlutasamstarf með öllu á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Staðan erfið í Kópavogi

Staðan er einnig snúin í Kópavogi. Fjórir dagar eru síðan niðurstaða kosninga varð ljós en enn eru engar viðræður hafnar um áframhaldandi samstarf meirihlutans þó svo að hann hafi haldið. Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi og oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að verið væri að fara yfir stöðuna í baklandi flokksins og hjá bæjarfulltrúum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru skiptar skoðanir innan flokksins og meðal bæjarfulltrúa um hvort meirihlutinn hafi í raun haldið. Núverandi meirihlutasamstarf er milli Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar, með Theódóru Þorsteinsdóttur oddvita Bjartrar framtíðar sem formann bæjarráðs. Björt framtíð hefur hins vegar sameinast Viðreisn í Kópavogi og buðu flokkarnir tveir fram sameiginlegan lista fyrir kosningar. Bæjarfulltrúar segja því margir að viðsemjandinn sé ekki sá sami og vilja jafnvel leita til annarra flokka, líkt og Framsóknar. Ekki liggur fyrir hvenær ákvörðun um þetta verður tekin. Ekki náðist í Ármann eða Theodóru við gerð fréttarinnar. 

Fundir standa yfir í Hafnarfirði í dag

Formlegar meirihlutaviðræður Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og óháðra eru hafnar í Hafnarfirði og standa fundarhöld yfir í dag. 
Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, staðfesti þetta við fréttastofu í gærkvöldi. Þetta er í fyrsta skipti í 20 ár sem Framsóknarflokkurinn fær mann inn í Hafnarfirði. 

Rósa átti fund með oddvitum allra flokka sem náðu kjöri. Hún segir að eftir þau fundarhöld hafi hún fundið fyrir mestri málefnalegri samstöðu með Framsókn og óháðum. Ágúst Bjarni Garðarsson er oddviti Framsóknar og óháðra í Hafnarfirði. 

Fréttin var uppfærð kl 14.13. Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að Viðreisn hefði útilokað samstarf með Miðflokknum í Reykjavík. Það er ekki rétt. Beðist er velvirðingar á þessu. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV