Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Slökkti á öryggiskerfinu fyrir ránið

04.08.2015 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - Lögreglan á höfuðborgarsvæ�
Öryggisvörður slökkti á öryggiskerfi í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði skömmu áður er stórfellt skartgriparán var framið í verslunni Úr og gull. Þjófavarnarkerfið í búðinni er ekki með sjálfvirka hringingu í símanúmer þegar það fer í gang.

Þjófurinn er talinn hafa stolið skartgripum fyrir margar milljónir króna í skartgripaversluninni. Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðarins, segir augljóst á öllu að þar hafi vanur maður verið á ferð og að hann hafi kynnt sér aðstæður fyrirfram.

Öryggiskerfið ekki í gangi

Guðmundur Bjarni segir að klukkan hálfsex í gærmorgun hafi öryggisvörður komið á svæðið eftir að tilkynnt hafi verið um opnar dyr í Firðinum. Öryggisvörðurinn kannaði aðstæður, slökkti á öryggiskerfinu og kveikti ekki á því aftur þegar hann fór. Þjófurinn braust inn klukkan hálfsjö. Hann reyndi að brjótast inn á jarðhæð. Það gekk ekki og braut hann sér því leið inn á 2. hæð segir Guðmundur Bjarni.

Gekk beint að dýrustu gripunum

Þegar að versluninni kom valdi þjófurinn hliðarrúðu sem er með filmu þannig að glerbrot dreifast ekki þegar hún er brotin. Guðmundur Bjarni segir að þjófurinn hafi byrjað á því að ganga beint að dýrustu skartgripunum í búðinni, tekið þá og látið síðan greipar sópa. Hann hafi því þekkt vel til. Þjófavarnarkerfið í búðinni mun vera þannig að viðvörunarbjalla fer í gang þegar brotist er inn en hins vegar er sendir kerfið ekki tilkynningu í símanúmer um að eitthvað sé að. Öryggisvörður kom aftur í Fjörðinn klukkan sjö í reglubundna ferð til að opna dyr. Það var hins vegar ekki fyrr en um níuleytið í gærmorgun sem í ljós kom að rán hafi verið framið.

Þjófsins enn leitað

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið ábendingar eftir að hún setti myndband úr upptökukerfi Fjarðarins af þjófnum á Facebook-síðu lögreglunnar. Enginn hefur verið handtekinn. Þeir sem hafa upplýsingar um manninn eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1142 eða senda henni skilaboð á Facebook.

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV