Slökkt á ofni kísilvers PCC á Bakka

24.02.2019 - 16:43
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Slökkva þurfti á einum ofna kísilvers PCC á Bakka við Húsavík í dag. Vegna þessa berst töluverður reykur frá verksmiðjunni og lyktar getur orðið vart, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir að rykhreinsivirkið fyrir annan ofninn sé stíflað og því hafi þurft að opna neyðarskorsteina. Nokkur atvik hafa komið upp í verksmiðjunni frá gangsetningu og í tilkynningu frá PCC segir að það geti reynst þrautin þyngri að gangsetja verksmiðju. Öll framleiðsla lá niðri í tæpar tvær vikur í fyrrasumar eftir að eldur kviknaði í ofnhúsi verksmiðjunnar. Engin alvarleg frávik hafa þó orðið en nokkrir hnökrar í vinnsluna núna. Slökkt hefur verið á ofni 1 vegna stíflu í rykhreinsivirki og líklegt að slökkt verði á ofni 2 einnig. Í tilkynningu segir að vonast sé til að þessu verði komið í lag sem allra fyrst. 
 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi