Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Slitabú WOW vildi kyrrsetja eignir móðurfélagsins Títan

22.01.2020 - 08:16
Mynd með færslu
 Mynd: Marvin Mutz - Wiki Commons CC-BY-SA
Skiptastjórum í WOW air tókst ekki að kyrrsetja neinar eignir fjárfestingafélagsins Títan móðurfélags WOW air. Títan varð gjaldþrota 28. mars í fyrra, sama dag og WOW air varð gjaldþrota. Allar eignir Títan eru veðsettar Arion banka.

Frá þessu er greint í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Slitabú WOW air óskaði eftir atbeina dómstóla til þess að kyrrsetja eignir Títan en þá kom í ljós að allar eignirnar eru veðsettar vegna lánveitinga Arion banka.

Eignir Títans, samkvæmt ársreikningi ársins 2018, er hlutur í Carbon Recycling International ehf. sem metinn var á 321,4 milljónir króna.

Slitabú WOW air vill einnig fá upplýsingar um 108 milljóna króna arðgreiðslu frá WOW air til Títan í febrúar í fyrra, nokkrum vikum áður en félögin urðu gjaldþrota. Arðgreiðslan er vegna Cargo Express ehf. sem WOW keypti af Títan og átti að koma til frádráttar kaupverðsins í félaginu sem var á gjalddaga 30. apríl 2019. WOW air var í miklum lausafjárvandræðum þegar þessi arðgreiðsla var greidd út.