Sleikdansar og kynlífssögur

Mynd: RÚV / RÚV

Sleikdansar og kynlífssögur

03.10.2018 - 14:24
Það muna sennilega flestir eftir fyrsta sleiknum sínum eða fyrsta skiptinu sem að þeir fóru á stefnumót. Það og fleiri fyrstu skipti eru viðfangsefni sýningarinnar Fyrsta skiptið sem að frumsýnd verður í Gaflaraleikhúsinu nú í október.

Arnór Björnsson og Berglind Alda Ástþórsdóttir eru meðal höfunda og leikara í sýningunni sem að þau segja að miklu leiti vera byggða á eigin reynslu og sögum frá góðum vinum, þau neita því þó ekki að þær séu svolítið kryddaðar hér og þar. Hvort sem það er fyrsti kossinn, fyrsta stefnumótið, kynlífið, sambandsslitin, sjálfsfróunin eða fyrstu blæðingarnar, þá er það allt tekið fyrir í sýningunni og fjallað um á smekklegan og fyndinn máta.

Þrátt fyrir það sem kannski mætti halda er ekkert farið í sleik í sýningunni sjálfri né heldur aðrar kynlífstengdar athafnir. Þess í stað notast krakkarnir mikið við myndlíkingar og er sleikur til að mynda túlkaður í dansverki. Ásamt Arnóri og Berglindi eru höfundar og leikarar Inga Steinunn Henningsdóttir, Mikael Emil Kaaber og Óli Gunnar Gunnarsson. Björk Jakobsdóttir er svo krökkunum innan handar og leikstýrir verkinu.

Hægt er að fylgjast með ferlinu á Facebooksíðu sýningarinnar en miðasala fer fram á tix.is en frumsýning er 14.október. 

Núllið kíkti á æfingu á verkinu í Gaflaraleikhúsinu og myndband frá því má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Leiklist

Hver sýning frumsýning og jafnframt lokasýning

Leiklist

Ikea er staður tímamóta

Leiklist

Hrífandi leiksýning um þunglyndi

Leikur á öllum sviðum Borgarleikhússins