Slegist um að ná myndum og viðtölum

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Slegist um að ná myndum og viðtölum

13.05.2019 - 13:58

Höfundar

Eurovisionkeppnin 2019 var sett með pompi og prakt í gærkvöldi á appelsínugulum dregli í þjóðleikhúsi Ísraela, Habima í Tel Aviv. Hatari vakti eftirtekt að vanda á dreglinum og fjölmiðlafólk allra landa var æst í að ná tali og ljósmyndum af hópnum.

Mikil eftirvænting hafði gripið um sig á meðal gesta og starfsfólks hátíðarinnar, að sjá hvernig liðsmenn hópsins kæmu fram á appelsínugula dreglinum, en klæðnaður Hatara hefur vakið mikla athygli í keppninni. Eins og venjulega sáu búningahönnuðir Hatara, Karen Briem og Andri Hrafn Unnarsson, um allt útlit listamannanna sem olli engum vonbrigðum á dreglinum.

Listamenn 41 lands gengu dregilinn og eins og venjulega var margt um manninn á þessari 64. Eurovision-hátíð. Eftir appelsínugula dregilinn var öllum listamönnum og sendinefndum boðið til sætis innandyra þar sem formleg setningarathöfn fór fram. Þar héldu tölu Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri Eurovision, borgarstjóri Tel Aviv, Ron Huldai og fulltrúi ísraelska ríkissjónvarpsins KAN, Eldad Koblenz.

Fyrri undanúrslit eru annað kvöld, þriðjudaginn 14. maí þegar Hatari stígur á svið og freistar þess að verða eitt af þeim tíu löndum sem komast áfram í úrslitin. Seinni undanúrslit eru fimmtudagskvöldið 16. maí en úrslitin sjálf verða laugardagskvöldið 18. maí.

Glefsur frá opnunarhátíðinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Hópurinn á appelsínugula dreglinum.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Hatrið hefur sigrað

Tónlist

„Fjarstæðukennt að vera í þessari keppni“

Tónlist

Vildu ekki tjá sig um heimsókn á Vesturbakkann

Innlent

Hatari á appelsínugula dreglinum í Tel Aviv