Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Sláturhús fimm – Kurt Vonnegut

Mynd:  / Wiki

Sláturhús fimm – Kurt Vonnegut

15.08.2020 - 15:40

Höfundar

Bók vikunnar er Sláturhús 5 eftir Kurt Vonnegut sem kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1969 og í íslenskri þýðingu Sveinbjörns I. Baldvinssonar árið 1982. Í þættinum bók vikunnar á rás 1, sunnudag kl. 10:15, ræðir Kristín Svava Tómasdóttir við Bryndísi Björgvinsdóttur og Sigurð Valgeirsson um bókina

Hér má heyra Leif Hauksson lesa tvö stutt brot úr sögunni sem og viðtal við þýðandann Sveinbjörn I. Baldvinsson.

Skáldsagan Sláturhús fimm snýst um árásir bandamanna á Dresden undir lok heimsstyrjaldarinnar síðari sem Vonnegut upplifði sem stríðsfangi Þjóðverja. Vonnegut gerði víst margar tilraunar að þessari sögu en það var ekki fyrr en tuttugu árum eftir að hann sneri heim úr hernum og heim frá Evrópu að honum tókst að gera þessari reynslu sinni skil í skáldsögu. Vonnegut var orðinn velþekktur rithöfundur þegar Sláturhús 5 kom út en með þeirri bók varð hann heimsfrægur.

Sveinbjörn I. Baldvinsson handritshöfundur með meiru kynntist bókinni þegar hann var í menntaskóla. Síðar átti Sveinbjörn eftir að leggja stund á bókmenntafræði og fjallaði BA ritgerð hans um höfundarverk Kurt Vonnegut fram að útgáfu Sláturhúss fimm. Í framhaldi að þeim skrifum ákvað Sveinbjörn að þýða bókina alla yfir á íslensku og kom þýðingin út hjá Almennta bókafélaginu 1982.  Bókin hefur aldrei verið endurútgefin en nálgast má eintök af henni á flestum bókasöfnum landsins. Þremur árum síðar eftir að Sláturhús fimm kom út sendi Sveinbjörn I. Baldvinsson einnig frá sér þýðingu á skáldsögunnni Guðlaun herra Rosewater eftir Vonnegut.

Vonnegut var gestur Alþjóðlegrar bókmenntahástíðar í Reykjavík árið 1987.

 Kurt Vonnegut skrifað fjöldann allan af bókum, mest skáldsögur og hefur verið lýst sem satírískum höfundi með sterkan stíl og erindi við lesendur.

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / Jórunn Sigurðardóttir