Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Slakt símasamband er áhyggjuefni í Öræfum

27.11.2017 - 23:09
Mynd: Ómar Ragnarsson / RÚV
Símasamband er víða stopult í Öræfum í Austur-Skaftafellssýslu. Þetta veldur íbúum á svæðinu áhyggjum, enda stendur til að nota sms skilaboð til að koma upplýsingum til íbúa á svæðinu ef eldsumbrot hefjast í Öræfajökli. Þetta var meðal þess sem fram kom á íbúafundi í Öræfum með fulltrúum almannavarna og Veðurstofunnar.

„Það hefur borið á því á þeim slóðum sem ég bý að það eru dauðir punktar og því hafa sms borist löngu seinna en þau ættu að gera,“ segir Magnhildur Björk Gísladóttir, skólastjóri grunnskólans í Hofgarði. Rætt var við hana og Sigrúnu Sigurgeirsdóttur í Tíufréttum Ríkisútvarpsins.

Magnhildur segir að ekki hafi komið fram á fundinum hvernig ætti að ráða bót á þessu. „Ég held jafnvel að þetta hafi ekki verið ígrundað nógu vel,“ segir hún og telur að það verði tvímælalaust að leysa þetta sem fyrst.

„Það eru gríðarlega margir ferðamenn hérna og það stendur til að nota sms sendingar ef það þarf að koma skilaboðum til þeirra. Þá skiptir máli að símasamband sé þar sem ferðamennirnir eru. Þeir eru á göngustígum upp um hvippinn og hvappinn. Þeir eru ekki endilega úti á þjóðvegi. Þannig að það þarf að fara yfir þetta,“ segir Sigrún Sigurgeirsdóttir, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Hún segir að víða á bæjum í sveitinni sé ekki símasamband og íbúar verði að koma sér fyrir til dæmis úti í glugga til að ná sambandi. „Svefnherbergin eru ekki þar. Fólk sefur inni í húsunum þar sem er lítið símasamband.“

Um tvö hundruð íbúar í Öræfum sátu fundinn í kvöld þar sem fjallað var um áætlun um neyðarrýmingu svæðisins, fari svo að eldsumbrot hefjist í Öræfajökli.

Magnhildur segir að börn á svæðinu fylgist vel með og séu áhugasöm um jarðhræringar í Öræfajökli. Börnin séu ekki hrædd, en ansi margar kennslustundir í grunnskólanum hafi farið í jarðfræðivangaveltur. 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV