„Slær mann sem ótrúlegt bruðl“

17.08.2019 - 18:00
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ríkið ekki eiga að vera leiðandi í launaákvörðunum, en bjóða samkeppnishæf laun. Hann segir starfslokasamning bankastjóra Arion banka slá sig sem bruðl.

Laun ríkisforstjóra hækkuðu um nærri fjórðung að meðaltali á tveimur árum þegar kjararáð hætti að ákvarða laun þeirra og stjórnir ríkisfyrirtækjanna tóku við því hlutverki. Miklu munaði á hækkunum hvers og eins og sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, í hádegisfréttum að það væri til marks um skort á launastefnu ríkisins fyrir ríkisforstjóra.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að tölurnar miði aðeins við þann tíma þegar forstjórarnir fóru undan kjararáði, ekki þegar þeir fóru undir það og lækkuðu mikið í launum. „Við höfum í því sambandi dæmi um að sumir forstjórar ríkisstofnana eru á pari við almenna markaðinn. Í sumum tilfellum finnst mönnum kannski að þeir séu eitthvað yfir og þá þarf að skoða hvort að það séu gild rök fyrir því. Því eru í raun stjórnir einstakra fyrirtækja ábyrgar fyrir.“

Bankastjóri Landsbankans hækkaði mest í launum, um 80 prósent.

„Það er auðvitað of mikil hækkun,“ segir Bjarni. „Þá kemur fyrst upp sú spurning hvort launin hafi verið úr takti við almenna markaðinn. Stefnan hjá okkur er sú að ríkið sé ekki leiðandi í launaákvörðunum en geti boðið samkeppnishæf laun. Það er viðmiðið sem við viljum sjá.“

Í síðustu viku var upplýst að fyrrverandi bankastjóri Arion banka, sem er þó ekki ríkisbanki, fékk 150 milljóna króna starfslokasamning. „Það slær mann sem ótrúlegt bruðl,“ segir Bjarni.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi