Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Sláandi að sjá ungum iðkendum beitt svona“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Sláandi að sjá ungum iðkendum beitt svona“

19.10.2017 - 13:42
22 fyrrverandi og núverandi landsliðsþjálfarar í körfubolta hafa sent frá yfirlýsingu þar sem fram kemur gagnrýni á körfuknattleiksdeild ÍR. Ástæðan er gagnrýni Brynjars Karls Sigurðssonar, þjálfara 10 ára stúlkna hjá ÍR, á Körfuknattleikssamband Íslands sem heimilaði liði Brynjars ekki að taka þátt í móti með 10 ára strákum síðustu helgi.

Leikmenn, þjálfari og foreldrar stóðu fyrir mótmælum fyrir utan Ásgarð þar sem mótið fór fram um helgina. Í yfirlýsingunni í dag kemur fram að „það hafi verið slá­andi að sjá að ung­um iðkend­um var beitt til að gagn­rýna körfuknatt­leiks­hreyf­ing­una.“

Á meðal þeirra sem skrifa undir yfirlýsinguna eru Helena Sverrisdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Hauka, Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara KR í karlaflokki og aðstoðarlandsliðsþjálfari karla, Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Keflavíkur í kvennaflokki og Ívar Ásgrímsson, landsliðsþjálfari kvenna í körfubolta. Yfirlýsinguna má lesa í heild hér að neðan:

Í kjöl­far umræðu í fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðlum um þátt­töku 10 ára stúlkna í minni­bolta­móti KKÍ vilja und­ir­ritaðir körfuknatt­leiksþjálf­ar­ar koma eft­ir­far­andi á fram­færi.

Við for­dæm­um þá at­b­urðarás sem þjálf­ari körfuknatt­leiks­deild­ar ÍR hrinti af stað um liðna helgi á fjölliðamóti KKÍ í Garðabæ. Það var slá­andi að sjá að ung­um iðkend­um var beitt til að gagn­rýna körfuknatt­leiks­hreyf­ing­una. Það hef­ur verið dap­ur­legt að heyra hvernig umræðan hef­ur verið af­vega­leidd og mark­visst upp­bygg­ing­ar­starf KKÍ og fjöl­margra fé­laga, bæði fyr­ir stúlk­ur og drengi, er gagn­rýnt með ómak­leg­um hætti. Það er mat okk­ar að þær ásak­an­ir sem fram hafa komið af hendi full­trúa ÍR vinni gegn út­breiðslu körfuknatt­leiks. Við telj­um að aðgerðir ÍR séu hvorki körfuknatt­leik né jafn­rétti til fram­drátt­ar.

Við fögn­um því að körfuknatt­leiks­deild ÍR hafi nú stigið fram, eflt kvenna­deild fé­lags­ins og byrjað aft­ur með meist­ara­flokk kvenna, eft­ir rúm­lega 10 ára hlé. Breiðholtið er gott og fjöl­mennt hverfi og börn þar eiga rétt á að stunda körfuknatt­leik til jafns við aðrar íþrótt­ir. Á sama tíma höf­um við veru­leg­ar efa­semd­ir um að þeirra fyrsta skref nú eigi að vera að gagn­rýna og út­hrópa það starf sem KKÍ og fé­lög hafa unnið á síðustu árum og ára­tug­um. Við hvetj­um for­svars­menn ÍR að taka þátt í umræðu með okk­ur og KKÍ um upp­bygg­ingu körfuknatt­leiks og mark­miði með þátt­töku yngri iðkenda og af­reks­starfi þeirra eldri.

Við hörm­um að svona sé komið og telj­um skaðlegt að mál af þess­um toga sé rakið í fjöl­miðlum, öll­um til ógagns, ekki síst þeim börn­um sem eiga í hlut. Við hvetj­um körfuknatt­leiks­deild ÍR til að beina mál­um í rétt­an far­veg og draga til baka um­mæli sem fallið hafa.  Börn eiga rétt að fá að vera börn og standa fyr­ir utan harka­leg­ar deil­ur ein­stak­linga við íþrótta­hreyf­ing­una. Við velt­um fyr­ir okk­ur, fyr­ir hvern eru aðgerðir eða mót­mæli á borð við at­b­urði síðustu helg­ar? Hver hef­ur hag af slíkri uppá­komu?

Rétt er að benda á að oftsinn­is í öll­um íþrótta­grein­um hafa komið upp hóp­ar, stúlkna jafnt sem drengja, sem hafa haft yf­ir­burði, tíma­bundið eða til lengri tíma, yfir jafn­aldra sína. Í öll­um til­vik­um hafa verið fundn­ar leiðir til að all­ir fái verk­efni við hæfi, eft­ir getu, þroska (and­leg­um og lík­am­leg­um) og áhuga. Sú leið sem körfuknatt­leiks­deild ÍR valdi er ein­fald­lega röng og er skaðleg fyr­ir leik­inn og börn­in að okk­ar mati.

Við ósk­um ÍR góðs geng­is í upp­bygg­ingu á kvenna­körfu­bolta í Breiðholt­inu.

Und­ir­rituð hafa öll margra ára eða ára­tuga reynslu af körfu­boltaþjálf­un, hafa þjálfað stúlk­ur sem drengi, meist­ara­flokk beggja kynja og landslið Íslands. All­ir þjálf­ar­ar eru sam­mála um mik­il­vægi jafn­rétt­is kynj­anna í íþrótt­um. Halda þurfi áfram þarf að vinna markvist að því að jafna hlut kynj­anna í íþrótt­um. Við öll sem rit­um nafn okk­ar hér hafa hlotið mennt­un og þjálf­un til að kenna börn­um og full­orðnum og leiðbeina þeim í körfuknatt­leik, auk þess sem sum hafa menntað sig í upp­eld­is­fræðum.

Virðing­ar­fyllst,

Nú­ver­andi og fyrr­ver­andi landsliðs þjálf­ar­ar

Ágúst S. Björg­vins­son, Árni Þór Hilm­ars­son, Bene­dikt Guðmunds­son, Bylgja Sverr­is­dótt­ir, Ein­ar Árni Jó­hanns­son, Finn­ur Jóns­son, Finn­ur Freyr Stef­áns­son, Friðrik Ingi Rún­ars­son, Helena Sverr­is­dótt­ir, Hild­ur Sig­urðardótt­ir, Hjalti Þór Vil­hjálms­son, Ingi Þór Steinþórs­son, Ingvar Þór Guðjóns­son, Ívar Ásgríms­son, Kjart­an Atli Kjart­ans­son, Lár­us Jóns­son, Mar­grét Stur­laugs­dótt­ir, Sig­urður Ingi­mund­ar­son, Snorri Örn Arn­alds­son, Sverr­ir Þór Sverris­son og Sæ­vald­ur Bjarna­son.

Við þetta má bæta að körfuknattleiksdeild Stjörnunnar birti yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni 18. október þar sem útskýrt er af hverju Brynjar Karl Sigurðsson hætti sem þjálfari hjá Stjörnunni. En hann réði sig sem þjálfara hjá ÍR og er einmitt þjálfari 10 ára stelpnaliðsins þar sem mótmælti um helgina að mega ekki keppa á móti strákum.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Tengdar fréttir

Mannlíf

Of stuttur fyrirvari hjá körfuboltastelpunum

Mannlíf

Mótmæltu að mega ekki keppa við stráka