Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skýrist í dag eða á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna segir að stefnt sé að því að það skýrist í dag eða á morgun hvort ríkisstjórn þess flokks, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins verði mynduð. Hún segir að ríkisstjórnin yrði hvorki hrein vinstri né hægri stjórn og því þurfi að leysa úr ýmsum málum með öðrum hætti en gert hafi verið hingað til.

Flokkarnir þrír hafa verið í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum frá því 13. nóvember, eða í hartnær hálfan mánuð. Þau tíðindi sem hingað til hafa borist hafa verið að viðræðurnar hafi gengið vel. Nú er hins vegar að koma að úrslitastundu í viðræðunum.

„Staðan er sú að við stefnum að því að það skýrist í dag eða á morgun hvort við náum þessu ekki saman. Þetta hefur tekið sinn tíma, bæði af því að þetta eru ólíkir flokkar sem sitja við borðið en líka af því að það þarf að huga samhliða að gerð málefnasamnings og gerða tillagna fyrir fjálög. Þannig að við metum það þannig að þetta ætti að liggja nokkuð ljóst fyrir í dag eða á morgun hvort saman næst. Þá væri hægt að boða flokksstofnanir til að taka afstöðu til þess hvað kæmi út úr þessum viðræðum.“

Katrín segir að unnið hafi verið mikið að því að leysa úr þeim málum sem flokkarnir eru ósammála um - til að mynda skattamálum. En ljóst sé, eins og áður hafi komið fram, að stjórnin verði mynduð um uppbyggingu inn viða, eins og í heilbrigðis- og menntakerfinu. „Þetta verður auðvitað hvorki vinstri stjórn né hægri stjórn, heldur stjórn sem leggur smaan um þessar stóru línur og horfir til að leysa þau mál sem menn eru ósammála um með öðrum hætti en væri í slíku hefðbundnara samstarfi.“

Katrín sagði að ekki hefði verið rætt um skiptingu ráðuneyta. Það yrði ekki gert fyrr en að málefnasamningur lægi fyrir.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV