Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skýrist á mánudag hvort viðræður skila árangri

10.12.2016 - 18:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það skýrist í síðasta lagi á mánudag hvort flokkarnir fimm - Píratar, Viðreisn, Björt framtíð, Samfylking og VG - hefji formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta segir Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata. Hún segir flokkana komna ansi langt en viðræðurnar séu þó á viðkvæmum stað. Birgitta segist vera bjartsýn á að þeim takist að finna málamiðlanir og geti myndað ríkisstjórn.

Fulltrúar flokkanna fimm hittust á fundi í dag. Birgitta segir á morgun sé gert ráð fyrir að hafa undirhóp sem eigi að fara yfir sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Í framhaldinu verða gögn og upplýsingar skoðuð „til að kanna hvort hægt við getum dregið þræðina saman og farið þá í formlegar stjórnarmyndunarviðræður,“ segir Birgitta. 

Þingflokkarnir hittist síðan annað kvöld og farið verði yfir stöðuna á mánudag. „Við munum greina frá niðurstöðum þessarar lotu á mánudag - í síðasta lagi.“

Flokkarnir fimm hafa verið í óformlegum viðræðum í átta daga.  Birgitta segir þau hafa gefið sér góðan tíma til að skilja þessa ólíku menningarheima sem eru í flokkunum. „En við verðum að fara koma með fastmótaðar tillögur sem allir geta fellt sig við og við getum náð samhljómi um í þingflokkum og grasrót flokkanna.“

Birgitta var spurð að því í gærkvöld í skemmtiþætti Gísla Marteins hverjar væru líkurnar á því að ný ríkisstjórn yrði mynduð fyrir föstudag í næstu viku. Birgitta svaraði að líkurnar væru 90 prósent. „Ég var í skemmtiþætti og skaut bara á þessa tölu. Ég er enn þá mjög bjartsýn á að okkur takist að finna málamiðlanir og getum myndað ríkisstjórn.“

Hún segir að það hafi verið rætt hvað flokkarnir geti gert í þessu samstarfi samanborið við það sem þeir gætu gert í samstarfi við þá flokka sem nú eru á hliðarlínunni - Sjálfstæðisflokkur og Framsókn. „Það hefur verið ákall um betri stjórnsýslu, umbætur í kerfinu okkur og mýmargt annað sem gæti reynst erfitt með hinum flokkunum tveimur.“

En þrátt fyrir bjartsýni segir Birgitta að viðræðurnar séu á viðkvæmum stað og hún vilji því ekki taka eitthvað eitt atriði út fyrir sviga - eins og til að mynda fjármögnun á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. „Við erum öll sammála um að það þurfi að auka fjármuni til þess. Að það þurfi að ná í tekjur til að fjármagna heilbrigðiskerfið. Við erum komin ansi langt.“

Aftur á móti hafi það ekkert borið á góma hvaða flokkur fái hvaða ráðuneytið. „Málefnin eru mikilvægust og hvernig við getum tryggt að ríkisstjórnin verði öflug út kjörtímabilið. Ráðuneytin eru ekki aðalatriðin heldur hverju maður getur komið í verk.“

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV