Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skýring: Þróun stríðsins í Sýrlandi

03.11.2015 - 17:44
epa05001768 Syrians look at a destroyed field hospital in the rebel-held area of Douma, outskirts of Damascus, Syria, 29 October 2015. According to local activists more than 10 people died during an airstrike by forces loyal to the Syrian government.  EPA
 Mynd: EPA
epa04994524 A new wave of migrants walk from Croatia to Slovenia through a green field near Rigonce village at the Slovenian border, 25 October 2015. Many of the migrants are exhausted, they have been waiting for hours at the closed border in Croatia in
 Mynd: EPA
This image made from a militant video posted on a social media website on Wednesday, Aug. 5, 2015, which has been verified and is consistent with other AP reporting, purports to show a militant standing next to another man who identifies himself as 30
 Mynd: AP - Militant video
epa04707553 Palestinian fighters are seen walking at Palestine Camp near Damascus, Syria on 16 April, 2015. The camp is adjacent to al-Yarmouk camp that was overrun by the Islamic State?s group earlier this month and which is currently witnessing fierce
Palestínskir bardagamenn hafa tekið virkan þátt í baráttunni við Íslamska ríkið og Al-Nusra í Sýrlandi. Hér eru þeir á ferðinni í flóttamannabúðum landa sinna í Damaskus, sem bæði Íslamska ríkið og Al-Nusra hafa herjað á undanfarið.  Mynd: EPA
Lebanon, Marjayoun area, Marj El Khokh camp.
 Mynd: © UNICEF/MENA2014-00020/Romenzi
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ástandið í Sýrlandi hefur líklega aldrei verið jafn eldfimt og akkúrat núna. Barist er á vígstöðum víða í landinu og það sem byrjaði sem mótmæli gegn forseta landsins árið 2011, er nú orðið að alþjóðlegu þrætuepli sem hrakið hefur milljónir manna á flótta og valdið dauða 250 þúsund Sýrlendinga.

Stríðið í Sýrlandi á rætur að rekja til „arabíska vorsins“ svokallaða, friðsamlegra mótmæla sem fóru fram í nokkrum arabaríkjum vorið 2011 og hófst með byltingu í Túnis í desember árið 2010. Hvergi hefur arabíska vorið haft jafn miklar afleiðingar ógæfu- og ófarnaðar eins og í Sýrlandi.  Yfir fjórar milljónir Sýrlendinga hafa þurft að flýja landið á síðustu árum og yfir 250 þúsund hafa látið lífið frá því átökin hófust. Stríðið er ekki lengur borgarastyrjöld heldur eiga alþjóðleg hernaðarátök sér stað á stóru landssvæði fyrir botni Miðjarðarhafs.

Tímalína: Átökin í Sýrlandi

Arabíska vorið í Sýrlandi
Þann 26. janúar 2011 brutust út mótmæli meðal almennra borgara í Damaskus, höfuðborg Sýrlands, þegar lögreglumaður réðst á óbreyttan borgara og handtók hann, fyrir litlar sakir. Almenningur kallaði eftir því að maðurinn yrði látinn laus þar sem hann hefði ekkert til saka unnið. Í mars voru unglingar í borginni Deraa handteknir og pyntaðir af yfirvöldum fyrir að hafa málað slagorð uppreisnarmanna á vegg í skóla í borginni. Mótmælu brutust út vegna þess og í kjölfarið drápu öryggissveitir Bashar al-Assads, Sýrlandsforseta, fjölda mótmælenda.

Á næstu vikum og mánuðum var stjórn Assads mótmælt í borgunum Aleppo, al-Hasakah, Daraa, Deir ez-Sor og Hama, auk Damaskus, og þess krafist að hann segði af sér. Þann 18. apríl komu 100 þúsund mótmælendur saman á aðaltorginu í Homs og kröfðust afsagnar forsetans. Mótmælin héldu áfram fram á sumar – en stjórnarher Assads svaraði mótmælendum með mikilli hörku. 

Upphaf borgarastyrjaldar
Þann 31. júlí voru kaflaskil. Vorbragur byltingarinnar hvarf eins og dögg fyrir sólu þegar sýrlenski stjórnarherinn réðst gegn mótmælendum í borgunum Hama, Deir ez-Sour, Abu Kalam og Herak. Að minnsta kosti 136 almennir borgarar létu lífið. Uppreisnarhópar voru farnir að myndast víða og í desember sama ár náði Sýrlenski frelsishersinn, hópur vopnaðra uppreisnarmanna, hluta borgarinnar Homs á sitt vald.  Barátta stjórnarhersins snérist ekki lengur um að þagga niður í mótmælendum – heldur að berast á banaspjótum gegn vopnuðum uppreisnarmönnum.

Í febrúar 2012 létust 500 óbreyttir borgarar í Homs þegar stjórnarherinn gerði sprengjuárás í borginni. Í mars hóf stjórnarherinn hernaðaraðgerðir gegn öðrum uppreisnarhópum í Idlib í norðvesturhluta landsins og náði borginni aftur á sitt vald. Átök milli stjórnarhersins og Sýrlenska frelsishersins héldu áfram í Homs og Hama. Þann 12. júní 2012 lýsti talsmaður Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi því yfir borgarastyrjöld í landinu ölluBlóðalda ófriðar og átaka var þá rétt skollin á og átti eftir að stigmagnast á næstu árum.Barátta ólíkra fylkinga
Alda ofbeldis reið yfir Sýrland á næstu vikum og mánuðum. Fjölmargir hópar uppreisnarmanna tóku að myndast og börðust gegn stjórnarher Assads í mörgum borgum landsins. Stríðið barst til stærstu borga landsins, Damaskus og Aleppo, árið 2012 og fljótlega varð öllum ljóst að aðrir þættir en óánægja með Assad og hans stjórn, yllu ófriðnum.   

Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna frá seinni hluta 2012 kemur fram að borgarastríðið í Sýrlandi hafi einkennst af baráttu milli ólíkra trúarhópa. Sýrland er landssvæði þar sem fólk af ólíkum trúarbrögðum hafa um aldaraðir búið hlið við hlið. Deilurnar hafi verið milli annars vegar stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, sem að mestu eru Alavítar, og aðrir shía-múslimar, og hins vegar uppreisnarmanna úr röðum Súnníta.  Áhrifa deilnanna gætir einnig í nágrannaríkinu Írak,  þá helst fyrir tilstuðlan Íslamska ríksins, hryðjuverkasamtaka sem hafa vaxið gríðarlega í skugga átakanna.

Íslamistum vaxið ásmegin
Eins og fram hefur komið eru hópar vopnaðara uppreisnarmanna í landinu margir, og ólíkir. Herskáum Íslamistum óx ásmegin í Sýrlandi og Írak í skugga borgarastyrjaldarinnar og eru nú orðnir sterkari og fjölmennari heldur en sveitir annarra uppreisnarmanna. Íslamska ríkið, hópur íslamskra vígamanna sem klauf sig út úr Al-Kaída, hefur náð yfirráðum á gríðarstórum landsvæðum í norður- og suðurhluta Sýrlands, sem og í nágrannaríkinu Írak. Samtökin fá liðsstyrk frá íslamistum víða um heim og berjast nú bæði gegn uppreisnarmönnum, stjórnarhernum, sem og öðrum íslömskum harðlínumönnum, eins og Al-Nusra samtökunum. Greint var frá því á dögunum að leiðtogi Al-Nusra, Abu Suleiman al-Masri, hafi látist í sprengjuárás sýrlenska stjórnarhersins.

Á síðasta ári sótti Bandaríkjaher hart fram gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi með það að markmiði að afmá samtökin af yfirborði jarðar. Á sama forðast Bandaríkjaher að skaða Íslamska ríkið á þeim svæðum sem það gæti strykt stöðu Assad forseta og stjórnarhersins.

Enginn friður í augsýn?
Á hinu pólitíska sviði eru uppreisnarhópar á víð og dreif og í mikilli andstöðu sín á milli. Þjóðarbandalag Sýrlands, nýtur til að mynda stuðnings vesturveldanna og Persaflóaríkjanna. Samtökin hafa hins vegar lítil áhrif í Sýrlandi og aðrir uppreisnarhópar viðurkenna ekki réttmælti þeirra. Uppreisnarhópar í landinu eru þannig sundurleitir í baráttu sinni gegn Assad og þurfa á sama tíma berjast við ógnina sem stafar af Íslamska ríkinu. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa til dæmis sakað uppreisnarmenn í Sýrlandi um stríðsglæpi með því að nota fanga sem mannlega skildi. 

Alþjóðasamfélagið er ráðþrota gagnvart ástandinu í Sýrlandi óvíst er hvort pólitísk lausn sé í sjónmáli. Í janúar á síðasta ári leiddu Bandaríkjamenn, Rússar og Sameinuðu þjóðirnar saman hesta sína í Genf með að markmiði að koma á fót stjórnvaldi í Sýrlandi sem miðaði að því að sætta hópa uppreisnarmanna og Sýrlandsstjórnar. Viðræðurnar fóru fljótt út um þúfur þar sem sýrlensk stjórnvöld voru ekki tilbúin að ganga til viðræðna við uppreisnarmenn og vildu frekar einblína á baráttuna gegn vígamönnum Íslamska ríkisins og öðrum íslamistum. Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur gefið út að langtímamarkið Sameinuðu þjóðanna sé að miðla pólitískri lausn á deilunni í Sýrlandi
.

Flókin staða
Borgastyrjöldin í Sýrlandi breyttist úr mótmælum almennra borgara yfir í vopnuð átök milli stjórnarhersins og ólíkra hópa stjórnarandstæðinga; hrottalegt stríð milli óteljandi fylkinga, sem eiga rætur sínar að rekja ekki síður til trúarlegra- og samfélagslegra þátta, eins og pólitískra.

Íranir og Rússar halda áfram að styðja við Sýrlandsstjórn, líkt og þeir hafa gert frá upphafi. Talið er að stjórnvöld í Íran styðji Assad um milljarða Bandaríkjadollara á ári hverju. Rússar hófu loftárásir á andstæðinga Assads í september á þessu ári. Yfirvöld í Rússlandi hafa gefið út að þau einsetji sér að ráðast á „hryðjuverkamenn,“ en talið er að mörg fórnarlambanna í loftárásum Rússa hafi verið óbreyttir borgarar og uppreisnarmenn sem Vesturveldin styðja. Sýrlandstjórn nýtur einnig stuðnings Hezbollah samtakanna í Líbanon, sem eru sítar.

Andstæðingarnir, súnnítar, njóta stuðnings Tyrkja, Sádí-Araba, Katara og annara Arabaríkja auk Bandaríkjamanna, Breta og Frakka. Tilkoma harðlínu íslamskra uppreisnarmanna víðsvegar að úr heiminum hefur hinsvegar haft áhrif á stuðning þessara ríkja og dregið úr honum. Framan af átökunum reiddi Assad sig aðallega á stjórnarherinn en frá árinu 2014 hafa sjálfboðaliðasveitirnar NDF (e. National Defence Force), gegnt veigameira hlutverki fyrir Assad og er nú ein aðalsprautan í hernaðaraðgerðum Assads gegn uppreisnarmönnum í landinu.Erfið staða Bandaríkjamanna
Á meðan eru Bandaríkjamenn upp við vegg. Þeir vilja koma Assad frá völdum en á sama tíma vinna með Rússum í bárattunni gegn Íslamska ríkinu.

Sergei Lavrov og John Kerry, utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna, hafa heitið því að vinna saman en ólík afstaða ríkjanna í garð Sýrlandsstjórnar gerir það að verkum að samvinnu þeirra miðar hægt. Loftárásir Bandaríkjamanna í Sýrlandi eru einkum og sér í lagi beint gegn Íslamska ríkinu og Al-Nusra. Rússar, aftur á móti, einbeita sér að stærri hópi uppreisnarmanna, þar á meðal hópum sem berjast eingöngu gegn Sýrlandsstjórn. Stjórnvöld í Rússlandi sögðu nýverið að þau væru fylgjandi viðræðum milli stjórnvalda í Damaskus og allra fylkinga sýrlensku stjórnarandstöðunnar, innanlands sem utan. Uppreisnarhópar í landinu höfnuðu skömmu síðar boði Rússa um að rússneski flugherinn veiti þeim aðstoð í sókn þeirra gegn Íslamska ríkinu.

Bandaríkjastjórn ákvað í síðustu viku að hleypa Írönum að viðræðum um hvernig megi enda stríðið í Sýrlandi. Hingað til hafa Bandaríkin komið í veg fyrir aðkomu Írans. Ákvörðunin þykir sigur fyrir Rússa sem hafa litið á það sem mistök að Írönum hafi verið meinaður aðgangur fyrir tveimur árum.

Í gær og í fyrradag vörpuðu rússneskar orrustuþotur sprengjum á 237 skotmörk í Sýrlandi – bæði á bækistöðvar Íslamska ríkisins og Al-Nusra. Kerry og Lavrov héldu árangrslítinn fund í lok síðasta mánaðar um framtíðarlausn í Sýrlandi. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur sakað Bandaríkjamenn um tvískinnung í stuðningi sínum við suma hópa uppreisnarmanna í Sýrlandi. Þann 30. september á þessu ári hófu Rússar loftárásir í landinu fyrir beiðni Sýrlandsstjórnar. Það hefur farið illa í Bandaríkjastjórn og telja margir að í uppsiglningu sé forliður að stríði milli Bandaríkjamanna og Rússa vegna þessa.

Skelfilegar afleiðingar fyrir Sýrlendinga
Áhrifa stríðsins í Sýrlandi gætir ekki aðeins þar í landi eða í nágrannaríkjum. Alls hafa 11 milljónir Sýrlendinga hrakist á vergang frá því stríðið hófst og fjórar milljónir manna flúið land. Flóttamenn hafa meðal annars leitað hælis í nágrannaríkjunum Sýrlands; Líbanon, Tyrklandi og Jórdaníu. Talið er að ein milljón Sýrlendinga hafist við í Líbanón, en aðeins þrjár milljónir manna búa í landinu. Fjöldi Sýrlendinga hefur flúið til Evrópu undanfarna mánuði í gegnum Tyrkland og yfir Miðjarðarhafi til Grikklands og straumur flóttmanna til Evrópu hefur ekki verið meiri frá stríðslokum.Móttökustöðvum fyrir að minnsta kosti 
100 þúsund flóttamenn verður komið fyrir í Evrópu á næsta ári.
Ríkisstjórn Íslands ákvað í haust að taka á móti 200 flóttamönnum á næstu tveimur árum og í desember koma hingað til lands 55 manns, allt Sýrlendingar.  

 

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður