Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skýring: Breyttar áherslur í Ottawa

09.11.2015 - 16:13
epa04985859 Canadian Prime Minister designate Justin Trudeau speaks during the rally to celebrate his majority victory in the Canada's 42nd election, in Ottawa, Canada, 20 October 2015. Justin Trudeau's Liberal Party beat the incumbent
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Mynd: EPA
Justin Trudeau, nýkjörinn forsætisráðherra Kanada, boðaði breytingar í kosningabaráttu sinni og ítrekaði það eftir sigur Frjálslynda flokksins í síðasta mánuði að áherslur Kanada á alþjóðavettvangi yðu aðrar en hjá ríkisstjórn forvera hans Stephens Harpers.

 Orrustuþotur kallaðar heim

Lítið hefur komið fram hjá Trudeau hverjar áherslubreytingarnar verði. Trudeau staðfesti þó daginn eftir kosningasigur sinn að hann hefði tilkynnt Obama Bandaríkjaforseta að Kanadamenn ætluðu að hætta þátttöku í lofthernaðinum gegn Íslamska ríkinu í Írak og Sýrlandi. Hann sagði að kanadískar orrustuþotur yrðu kallaðar heim, en gat ekki um hvenær. Þá hefur Trudeau boðað að allt að 25.000 sýrlenskum flóttamönnum verði veitt hæli í Kanada á þessu ári. 

Friðsamlegri utanríkisstefna

Ranjit Bhaskar, sjálfstæður fréttamaður og fréttaskýrandi í Toronto, segir í grein á vef Al Arabiya að með ákvörðun sinni að skipa Stéphane Dion í embætti utanríkisráðherra sé Trudeau að senda skilaboð til umheimsins. Skipan Dions, sem hafi um skeið verið Leiðtogi Frjálslyndaflokksins og fyrrverandi ráðherra, gefi til kynna friðsamlegri utanríkisstefnu í anda Lesters BPearson, fyrrverandi forsætisráðherra Kanada, sem hafi fengið friðarverðlaun Nóbels árið 1957 fyrir það að skipuleggja friðargæslusveitir á vegum Sameinuðu þjóðanna til að lægja öldur í Súez-deilunni. 

Bætt samskipti við Sameinuðu þjóðirnar

Bhaskar segir að Trudeau muni auk þess leggja áherslu á bætt samskipti við Sameinuðu þjóðirnar, samtök Samveldisríkja (Commonwealth of Nations áður Breska samveldið) og samtök frönskumælandi ríkja (Organisation internationale de la Francophonie). Stephen Harper og stjórn hans hafi opinskátt gagnrýnt Sameinuðu þjóðirnar kallað samtökin duglaus og eyðslusöm og vettvang fyrir einræðisherra. 

Loftslagsmál í forgangi

Þá verði baráttan gegn loftslagsbreytingum forgangsmál hjá Trudeau, bæði á alþjóðavettvangi og heima fyrir. Dion muni fara fyrir sendinefnd Kanada á loftslagsráðstefnunni í París í næsta mánuði, en ekki Catherine McKenna umhverfisráðherra. Dion hafi enda víðtaka reynslu í þessum málaflokki sem fyrrverandi umhverfisráðherra Kanada 2004-2005. Hann hafi átt þátt í mótun Kyoto-bókunarinnar á sínum tíma og setið í forsæti á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 2005. 

Áherslubreytingar í málefnum Austurlanda nær

Dion hefur gefið í skyn áherslubreytingar í stefnu Kanada í Austurlöndum nær, en leggur áherslu á gott samstarf og vinfengi við Ísrael. Trudeau hefur fagnað kjarnorkusamkomulagi stórveldanna og Írans og kveðst vona að stjórnmálasamband verði tekið upp að nýju við stjórnvöld í Teheran, en Kanada lokaði sendiráði sínu í Íran fyrir þremur árum. 

Breytingar fyrirsjáanlegar

Fen Osler Hampson, sérfræðingur alþjóðastjórnmálum og öryggismálum hjá Centre for International Governance Innovation, segir fyrirsjáanlegar breytingar á utanríkisstefnu Kanada eins og þegar megi sjá af ákvörðun Trudeaus um hernaðinn gegn Íslamska ríkinu. Hampson hefur í samstarfi við Stephen M. Saideman gefið út bók um utanríkisstefnu Kanada og hlutverk Kanadamanna í verkefnum á erlendri grundu, þar á meðal í hernaði og friðargæslu. Þeir benda á að Kanadamenn hafi hafi alltaf gert það í samstarfi við aðra, einkum Sameinuðu þjóðirnar eða Atlantshafsbandalagið. 

Aukin áhersla á viðræður og friðargæslu

Kanadamenn hafa leikið stórt hlutverk í friðargæslu undanfarna áratugi. Í kosningabaráttunni í sumar og haust gagnrýndi Trudeau Stephen Harper fyrir að leggja meiri áherslu á hernaðartengd verkefni í stað friðargæslu og diplómatískra leiða. Hann sagði eftir kosningasigurinn á dögunum að sá samhljómur samhygðar og uppörvunar sem einkennt hefði Kanada hefði horfið í tíð Harpers, en væri nú kominn aftur.

Mikil ferðalög framundan

Þótt Trudeau sé nýsestur í embætti forsætisráðherra lendir hann fljótt í hringiðu alþjóðastjórnmála. Hann situr leiðtogafund  G20-ríkjanna í Tyrklandi um næstu helgi. Þaðan fer hann til Filippseyja á fund Asíu- og Kyrrahafsríkja, APEC. Síðar í mánuðinum fer hann á fund Samveldisríkja á Möltu. Hápunkturinn verður svo í desember á loftslagsráðstefnunni í París.