Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skyldubólusetning fyrir alla á Samóa

18.11.2019 - 06:36
epa06756609 A worker from the World Health Organization (WHO) administers Ebola vaccination during the launch of an experimental vaccine in Mbandaka, north-western Democratic Republic of the Congo, 21 May 2018 (issued 22 May 2018). Two more people have
Bólusetning við ebólu. Mynd úr safni. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld á kyrrahafsríkinu Samóa hyggjast innleiða skyldubólusetningu gegn mislingum þar í landi. Neyðarástandi var lýst yfir á Samóa á föstudag vegna mislingafaraldurs sem þar geisar og hefur dregið minnst sex börn til dauða, flest undir tveggja ára aldri. Mislingafaraldur geisar líka á nágrannaeyjunni Bandaríska Samóa, Tonga, Fiji og fleiri eyríkjum Kyrrahafsins. Ástandið er þó langverst á Samóa, þar sem yfir 700 mislingasmit hafa greinst.

Innleiðing skyldubólusetningar er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í neyðarástandinu og verður skipulag hennar og framkvæmd kynnt í dag. Bólusetja á alla Samóabúa, um 200.000 manns, með svonefndu MMR-bóluefni gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum.

Ekki kemur fram hvort þau sem ekki hlýða kallinu verði beitt sektum eða öðrum refsingum. Öllum leik- og barnaskólum Samóa hefur verið lokað og eina háskóla eyríkisins líka, og fjöldasamkomur eru bannaðar, í von um að þannig megi hefta útbreiðslu þessarar bráðsmitandi sóttar. Nýsjálendingar, sem sjálfir kljást við mislingafaraldur, senda 12 hjúkrunarfræðinga með minnst 3.000 skammta af MMR-bóluefni til Samóa í þessari viku til að aðstoða við bólusetningarherferðina.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV