Skylda ráðamanna að hlusta á þá sem verst urðu úti

15.12.2019 - 19:05
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Peningar eiga ekki að skipta máli þegar kemur að því að tryggja fólki á landsbyggðinni sömu gæði og á höfuðborgarsvæðinu, segir forseti Íslands. Það sé skylda ráðamanna að hlusta á þá sem verst urðu úti í óveðrinu í vikunni, og koma þurfi í veg fyrir að afleiðingar óveðra í framtíðinni verði jafnalvarlegar og raun bar vitni á undanförnum dögum.

Gífurlegt óveður geisaði á landinu í vikunni og fordæmalausar aðstæður komu upp. Rafmagnslaust varð á stórum landsvæðum, fjarskiptasamband lá niðri og yfir eitt þúsund manns unnu að björgunarstörfum. 

„Við fundum það og sáum, við Íslendingar, að landið er harðbýlt, náttúruöflin óblíð,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. „Það voru yfir 1.000 manns sem hurfu frá fjölskyldu og vinum, frá starfi, frá því sem fólk var að sinna í dagsins önn. Fólk í björgunarsveitunum fór á vettvang, fót út í óveðrið, bjargaði fólki í vanda, leitaðist við að koma á rafmagni og hita þar sem það þurfti, svo víða um landið. Einvala lið lagði allt sitt af mörkum við Núpá, þar sem harmleikur varð. Þessu fólki eigum við svo mikið að þakka. Við fundum það enn einu sinni hversu mikinn fjársjóð við eigum í björgunarsveitum landsins. Og það er svo margt sem við getum rifist um í dagsins önn, en á þessum stundum finnum við líka að þegar á bjátar, þá skulum við standa saman. Mér finnst að það hafi tekist núna. Og þann lærdóm getum við dregið af því sem gekk á; styðjum þá sem styðja þarf, og þar með taldar eru björgunarsveitir þessa lands sem við reiðum okkur á þegar vanda ber að höndum.“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hér má sjá lengri útgáfu af viðtalinu við Guðna Th. Jóhannesson.

Krónur og aurar

Það hefur mikið verið rætt um innviði og öryggi varðandi raforku, hvað hefur þú um það að segja?

„Mér þótti gott, skynsamlegt og skiljanlegt að ráðherrar skyldu halda héðan af höfuðborgarsvæðinu og norður í land að kynna sér aðstæður, ræða við fólk og í sameiningu leita leiða til þess að koma í veg fyrir að eftirköstin verði jafnalvarleg. Auðvitað mun alltaf vera svo hér á landi að óveður geisi. En við höfum hingað til viljað gera betur næst og halda áfram að læra af því sem dynur yfir. Og ég þykist vita að sú verði áfram raunin núna.“

Hefurðu skilning á því að það fólk sem lenti í þessum aðstæðum og þessum hamförum vilji að gripið verði til aðgerða?

„Já, að sjálfsögðu. Og það er skylda þeirra sem eru í þeirri stöðu að geta bætt úr að hlusta á fólk sem hefur af eigin bitru reynslu núna lent í þessu. Og ég er þess alveg fullviss að ráðamenn munu sýna í verki að fólk vill bæta úr því sem þarf að bæta. Og það á að vera viðráðanlegt. Og við verðum líka að finna, þótt við búum nú langflest hér á suðvesturhorninu, Íslendingar, að aðstæður geta verið þannig víða um land að það þurfi að leggja í talsverðar fjárfestingar til þess að tryggja fólki það sama og við njótum hér. Hita, rafmagn, birtu og yl í húsum. Og þá eigum við ekki að horfa í krónur, aura og höfðatölu.“

„Allur er varinn góður“

Það kom í ljós að allir helstu innviðir okkar á stórum hluta landsins brugðust, rafmagn fór af, fjarskipti duttu út og meira að segja sjúkrahús voru án rafmagns. Þurfum við að bera meiri virðingu fyrir náttúrunni?

„Já, við getum í það minnsta dregið þann lærdóm að þótt við búum í heimi tækniframfara, þá er það nú svo að við hemjum ekki náttúruöflin þegar þau sýna hvað í þeim býr. Og framar öllu að við berum virðingu fyrir þessum ógnvaldi sem þessi fagra náttúra getur orðið. Og það er nú líka eitt sem við gerðum kannski vel, og jafnvel sérstaklega hér um slóðir, sunnanlands, að vegum var lokað og það heyrðist ekkert ramakvein yfir því. Og það er nú bara þannig að allur er varinn góður og ég held að við höfum komið í veg fyrir ýmsan vanda með því að fólk hlýddi viðvörunarorðum, og var ekki að ana út í óvissuna. Þannig að það er eitt af því sem við lærum smám saman, að búa okkur undir það sem við þykjumst vita að sé í vændum. Og vera ekki að tefla á tvær hættur,“ segir Guðni.