Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skylda að bólusetja börn við mislingum í Þýskalandi

02.03.2020 - 06:29
epa07609426 An ampoule containing a Priorix measles vaccine is placed next to a syringe on a tray at a pediatrician's practice in Munich, Germany, 27 May 2019 (issued 29 May 2019).  EPA-EFE/LUKAS BARTH-TUTTAS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkvæmt lögum sem tóku gildi í Þýskalandi í gær fá börn ekki inngöngu í leikskóla eða skóla nema hafa fengið bóluefni gegn mislingum. Bólusetningin verður að vera skráð. Ef svo er ekki verða skólar að gera heilbrigðisyfirvöldum viðvart.

Foreldrar þeirra barna sem þegar eru í skólakerfinu verða að framvísa vottorði um bólusetningu fyrir júlí á næsta ári. Þeir foreldrar sem neita að bólusetja börn sín geta búist við sekt sem nemur allt að 2.500 evrum, jafnvirði um 350 þúsund króna.

Réttindabrot segja foreldrar

Lögin eru síður en svo óumdeild. Þýska kennarasambandið segist styðja bólusetningaskyldu, en of mikið sé á kennara lagt að fylgjast með því að hver einasti nemandi þeirra sé bólusettur. Foreldrahópur kom saman fyrir utan stjórnarskrárdómstólinn í Karlsruhe í gær að sögn Deutsche Welle. Hópurinn segir lögin brjóta á stjórnarskrárbundnum rétti foreldra. Þeir séu ekki á móti bólusetningum, en segja lögin brjóta á rétti þeirra til að taka eigin ákvarðanir út frá viðeigandi, óháðum og óhlutdrægum upplýsingum.

Þegar lögin voru samþykkt vísuðu þingmenn í Þýskalandi til þess að þar hafi ekki tekist að ná viðmiðum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að 95% þjóðarinnar ætti að vera bólusett við mislingum. Þau viðmið eru sögð nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir faraldur. Samkvæmt embætti sóttvarnarlæknis í Þýskalandi hafa 93% barna í landinu fengið mislingasprautu áður en þau hefja skólagöngu.