Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Skýlaus krafa um rannsókn

18.09.2011 - 12:01
Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, segir það skýlausa skyldu lögreglunnar að rannsaka eftir bestu getu tilkynningar um dýraníð. Hann hvetur hestamenn til að fylgjast vel með hrossum sínum. Tilkynnt hefur verið um ofbeldi gegn 5 hryssum í sumar.

Um síðustu helgi fannst illa leikin hryssa í hagabeit í landi Meðalfells í Kjós.  Hún er sú þriðja úr sama stykki sem fundist hefur með blæðandi áverka á kynfærum. 

Í fréttum RÚV í gær greindu eigendur hryssanna frá því að lögreglan hafi ekki óskað eftir gögnum frá héraðsdýralækni um áverkana heldur sagt að málið yrði ekki rannsakað frekar nema vísbendingar um meintan geranda kæmu fram.

„Þannig að ég reikna með því að á morgun muni Matvælastofnun fara yfir þetta mál með okkar lögfræðingum og hafa samband við lögregluna og gera skýlausa kröfu til þess að allt verði gert sem hægt er til að rannsaka málið. Það hlýtur að vera skýlaus krafa að það sé eins og hægt er að reyna að komast að þessu og koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.“

Fyrr á þessu ári komu upp sambærileg mál þar sem áverkar fundust á kynfærum hryssa, eitt á Egilsstöðum, og annað á Flugumýri í Skagafirði.  Þau mál voru rannsökuð en málið upplýstist ekki.

„Menn mega samt ekki gefa sér að það sé ekki hægt og það verður að reyna að fara ofan í þett. Síðan verður að beina því til eigenda og umráðamanna hesta sem eru í hagagöngu að það sé fylgst vel með þeim og óeðlilegum mannaferðum í kringum það.“