Skýjum ofar

Mynd: Rúnar Þórisson / Rúnar Þórisson

Skýjum ofar

15.01.2016 - 14:46

Höfundar

Platan Ólundardýr er um margt tilraunakenndasta verk Rúnars Þórissonar til þessa og markast af öruggu, stundum himnesku flæði og fyrirtaks gítarleik, nema hvað. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í þessa nýjustu plötu Rúnars, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Rúnar Þórisson, sem leiddi Grafík í eina tíð ásamt vini sínum Rabba, Rafni Jónssyni, hefur nú gefið út allnokkrar sólóplötur. Hann hefur heldur gefið í að undanförnu hvað virkni varðar, síðasta verk kom út 2013 og þessi er í raun safnplata en Rúnar gaf út lag mánaðarlega á síðasta ári og eru þau saman komin hér.

Persónuleg

Þessi platan er án efa hans persónulegasta til þessa en hún er tileinkuð minningu föður hans og kom út á afmæli hans, þann 7. nóvember síðastliðinn. „Þannig liggur hugsunin um uppruna, arfleifð og þakklæti fyrir lífsgjöf að baki öllu þessu standi,” segir Rúnar sjálfur í tilkynningu. Tónlistarlega vinnur Rúnar með þann arf sem mótaði hann í árdaga sem tónlistarmann og hafði áhrif á sveitir hans þá (framsækið rokk áttunda áratugarins, kuldarokk þess níunda) og fléttar hann þessu haganlega saman við nýrri strauma (Sigur Rós t.d.) og svo eiginn, persónulega stíl. Útkoman af þessu er nokk einstök, samtímaleg plata en bundin sígildum minnum rokksögunnar. Þetta er um leið „harðasta“ plata Rúnars til þessa, minna er um melódísk lög og snoturheit, framvindan er þess í stað nokkuð framsækin og tilraunablær leikur um flest lögin. Öll eru þau haganlega samin og úthugsuð og greinilega allnokkur vinna á bakvið hvert og eitt. Kraftmeiri smíðarnar flæða taktvisst áfram, oft eru þau draumkennd þar sem epísk ris lyfta þeim skýjum ofar. Rennslið getur þó verið harðgerðara, líkt og í opnunarlaginu, „Rís upp“. Trommur þar eru naumhyggjulegar en þó snúnar og auðþekkjanlegur gítarleikur Rúnars klingjandi og hvass. Minnir dálítið á það sem King Crimson voru að gera í upphafi níunda áratugarins þegar Adrian Belew söng og sló á gítar ásamt meistara Fripp. Söngur Rúnars er tilþrifalítill ef svo mætti segja, og þá er ég ekki að lýsa því sem neikvæðu. Þvert á móti hæfir þessi eilítið „til baka“ stíll lagaforminu vel. Bakraddir eru oft nýtta r og í mörgum lögum er líkt og kór leiði þau áfram. Þetta er flott og gefur lögunum himneska áferð, undirstrikar þann stórbrotna farveg sem þau sigla einatt um. Textar eru fallegar hugleiðingar um tilgang þessa alls, ábrýningar um að nýta núið, elska og vera sannur. Sá boðskapur er hlýr og umlykjandi.

Heilsteypt

Platan er einkar heilsteypt og erfitt að pikka eina smíð frá annarri. Merkilegt, miðað við það hvernig hún var unnin. Ég nefni þó „Skref“, snilldarlega samsett lag og einkar áhrifaríkt. Rúnar leikur sér þar með ljós og myrkur, lagið steypist á einum punkti í surgandi gítarorgíu en klifrar svo aftur upp í áferðarfallegri gír. Svalt! Mest sláandi er þó lokasmíðin, „Í síðasta sinni“, sem er eftir föður hans, Þóri Sæmundsson við texta eftir Davíð Stefánsson. Þar er Rúnar bara einn með gítarinn og syngur hugljúfa, fallega stemmu. Röddin hrá, viðkvæm og eitthvað svo umkomulaus og þetta dýpkar verulega á upplifuninni.

Verkið vinnur Rúnar með sér mun yngra fólki, dætur hans og tengdasynir koma m.a. við sögu og það er visst tímaleysi yfir þessu öllu saman sem er hrífandi. Afar vel heppnuð plata og það eru ekki margir á Rúnars reki sem eru með puttann svona glæsilega á púlsinum.