Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skúra- og éljabakkar láta að sér kveða

30.10.2018 - 07:24
Mynd með færslu
 Mynd: cc
Landið er umkringt smálægðum og lægðadrögum en þeim fylgja skúra og éljabakkar, sem láta nokkuð að sér kveða. Allmikið lægðardrag fer yfir Austurland og rignir því við sjávarsíðuna, en gengur á með slyddu eða snjókomu inn til landsins. Lægðardragið þokast síðan vestur yfir landið síðdegis og fellur því einnig úrkoma á vesturhelmingi landsis á formi slyddu eða snjókomu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Þá segir að tölvuspár hafi verið flöktandi síðasta sólarhring svo að óvíst er að nái að snjóa nokkuð á höfðuborgarsvæðinu. Veðurfræðingur telur þó rétt að vekja athygli á lúmskri hálku á akbrautum og gangstéttum.

Á morgun spáir norðaustan með úrkomu  öðru hvoru víða um land, en lengst af þurrviðri suðvestan til. Hiti verður í lægri kantinum, en nær þó 6 stigum syðst. Útlit fyrir lægðagang og órólegt veður næstu daga.

 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV