Skúli fær ekki milljarðana

20.03.2015 - 07:38
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði á mánudag beiðni Skúla Þorvaldssonar um að kyrrsetningu á yfir sjö milljörðum króna yrði aflétt. Féð var kyrrsett að beiðni sérstaks saksóknara vegna rannsóknar og ákæru í Marple-málinu.

Það snýr að meintum fjárdrætti og umboðssvikum og hafa Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, verið ákærð. Þeim er gefið að sök, í ákæru að hafa skipulagt og framkvæmt átta milljarða króna fjárdrátt árin 2007 og 2008. Saksóknari segir að stærstur hluti þeirra fjárhæðar hafi runnið til félaga í eigu Skúla. Það sé vegna þess að Hreiðar og Guðný hafi látið Kaupþing kaupa skuldabréf af félagi Skúla, og þar með gerst sek um umboðssvik að mati saksóknara.

Skúli er ákærður fyrir hylmingu í málinu og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fyrir hlutdeild. Allir ákærðu neita sök. Aðeins eitt skjal fannst um viðskiptin og sögðust þeir Hreiðar Már og Magnús ekkert kannast við að slík viðskipti hafi átt sér stað.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi