Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skuldum breytt í hlutafé – framtíð Skúla óljós

26.03.2019 - 12:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Allir kröfuhafar WOW air nema Isavia hafa samþykkt formlega að breyta fimmtán milljarða króna kröfum sínum í 49 prósenta hlut í félaginu. Einn kröfuhafanna segir að félaginu sé þar með borgið, að minnsta kosti næstu vikurnar. Í tilkynningu frá Wow air segir að samþykki kröfuhafanna sé mikilvægt skref í endurskipulagningu fyrirtækisins.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, hefur átt þrjá símafundi með kröfuhöfum félagsins síðan um helgi til að freista þess að bjarga málum og koma í veg fyrir gjaldþrot. Samkomulag hefur náðst við kröfuhafa um að breyta skuldum í hlutafé og nú verður byrjað að endurskipuleggja fyrirtækið.

Einn þessara kröfuhafa er flugþjónustufyrirtækið Airport Associates á Keflavíkurflugvelli. Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, segir að kröfuhafar hafi fundað stíft og að þeir hafi samþykkt áætlun um endurskipulagningu fyrirtækisins sem felist í því að breyta skuldum Wow air í 49% hlutafé í félaginu. „Það er verið að umbreyta rúmlega 15 milljörðum í hlutafé,“ segir Sigþór. Aðrar skuldir séu rekstrartengdar en þær séu ekki til langs tíma.

Isavia utan við samkomulagið

WOW skuldar Isavia vel á annan milljarð króna. Sigþór segist ekki geta tjáð sig um viðræður um mögulegar tilslakanir við uppgjör á þeirri skuld. Isavia sé eitt utan við samkomulagið. Leigusalar flugvélanna sem Wow air notar eigi einnig þátt í samkomulaginu.

Framtíðarhlutverk Skúla hjá Wow óráðið

Sigþór segir að Skúli muni áfram eiga stóran hlut í félaginu en erfitt sé að segja til um hvert hlutverk hans hjá Wow air verður í framtíðinni. „Í dag er hann forstjóri félagsins og það verður í raun og veru bara nýrra eigenda að ákveða hans framtíðarhlutverk,“ segir Sigþór

Reynt hefur verið að afla allt að fimm milljarða króna í nýtt hlutafé. Þeir sem kæmu með það eignuðust þá meirihluta í félaginu. Sigþór segir að þetta gætu orðið glænýir hluthafar en einnig einhverjir núverandi kröfuhafa. Hann gerir lítið úr tímapressunni og segir að ögurstund sé ekki runnin upp.

Gæti tekið vikur að finna rétta hluthafahópinn

„Fjölmiðlar eru að reyna að búa til einhverja pressu, að það sé ögurstund eða að eitthvað lokist í dag eða á morgun,“ segir Sigþór. Það geti hins vegar tekið tíma að finna réttu hluthafana. „Ég er að horfa fram á jafnvel einhverjar vikur þangað til það verður komin niðurstaða og menn verða búnir að finna réttu hluthafana til að halda áfram með félagið,“ segir Sigþór.

Sigþór segir að þegar rýnt sé í tölur Wow air hafi fólk trú á félaginu. „Þá vilja menn fara þessa leið og og telja sig geta fengið þær skuldir sem er verið að umbreyta núna í hlutafé til baka á örfáum árum,“ segir hann.