Skuldabréfaútboð WOW tilkynnt til héraðssaksóknara

07.01.2020 - 12:03
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Skiptastjórar þrotabús flugfélagsins WOW air hafa sent tilkynningu til embætti héraðssaksóknara vegna hugsanlegs brots í rekstri flugfélagsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu snýr tilkynningin meðal annars að skuldabréfaútboði WOW og húsnæðismálum forstjóra flugfélagsins.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir í samtali við fréttastofu að tilkynning hafi borist en vildi að öðru leyti ekkert tjá sig um málið. Skiptastjórarnir tveir vildu heldur ekki tjá sig um málið en sögðu að þeim bæri, lögum samkvæmt, að tilkynna mál ef þeir yrðu áskynja um brot í rekstri félags.

Samkvæmt heimildum fréttastofu byggir tilkynningin að mestu leyti á ráðgjöf til skiptastjóra sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte skilaði af sér í ágúst.   Hún snýst meðal annars um skuldabréfaútboð WOW sem fór fram í september 2018. Í skýrslu Deloitte kemur fram að þar hafi safnast um fimmtíu milljónir evra eða nærri sjö milljarðar íslenskra króna. Um tuttugu milljónir evra  voru nýttar til að greiða upp skuldir við aðila sem voru sjálfir þátttakendur í útboðinu, sem voru tvær flugvélaleigur og Arion banki.   

Þá kemur fram í skýrslunni að félagið hafi sjálft tekið þátt í útboðinu auk þess sem Skúli Mogensen hafi keypt um 10 prósent af heildarútgáfunni. Deloitte segir að þátttaka Skúla virðist að fullu hafa verið fjármögnuð með lánum frá Arion banka og að ekki liggi fyrir hvort öðrum í skuldabréfaútboðinu hafi verið kunnugt um þátttöku WOW, Skúla eða fjármögnun hennar.

Í samantekt skiptastjóra, sem lögð var fram á skiptafundi í ágúst, er einnig fjallað nokkuð ítarlega um þetta skuldabréfaútboð. Þar kemur meðal annars fram að WOW og Arion banki hafi gert samkomulag skömmu áður en útboðinu lauk um þátttöku bankans. Í samantektinni segir að bankinn hafi skráð sig fyrir 4,3 milljónum evra gegn því að lágmarksfjárhæð myndi nást og að WOW myndi greiða yfirdráttarskuldir sínar upp án tafar eftir að félagið fengi andvirði fyrrgreinds skuldabréfaútboðs greitt til sín.

Þá herma heimildir fréttastofu að tilkynning skiptastjóranna snúi einnig að kaup- og söluréttarsamningum milli WOW air og Títans, móðurfélags WOW sem Skúli átti, og íbúðarmálum forstjórans. Í skýrslu Deloitte kemur fram að félagið greiddi 37 milljónir í leigu eða rekstur á fasteign í Lundúnum. Deloitte segir að ekki liggi fyrir hvort starfsmenn WOW hafi haft afnot af leiguíbúðinni. Sterkar vísbendingar séu hins vegar um að hún hafi fyrst og fremst verið notuð af forstjóra og endanlegum eiganda félagsins, Skúla Mogensen.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður skuldabréfaeigenda, sagði í samtali við fréttastofu að það væri enn í skoðun hvort þeir myndu leita réttar síns.