Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Skrýtin mynd og margt ósamstætt í henni“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd

„Skrýtin mynd og margt ósamstætt í henni“

15.06.2019 - 16:40

Höfundar

Rocket Man er ágætis skemmtun en margt í henni er þó einfeldningslegt og ristir ekki djúpt, sögðu þau Ester Bíbí Ásgeirsdóttir tónlistarkona, Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og Roald Eyvindarson blaðamaður, sem skeggræddu myndina í Lestarklefanum.

Í The Rocket Man er saga rakettumannsins Eltons Johns rakin frá æsku þar til hann slær í gegn, gengur í gegnum mikið gjálífi sem næstur gengur af honum dauðum, þar til hann snýr svo við blaðinu og fer í meðferð. „Mér fannst hún bara fín,“ segir Roald Eyvindarson sem viðurkennir þó að vera hvorki hrifinn af Elton John sem tónlistarmanni né söngleikjum svona almennt.

Myndir af þessum toga hafa verið vinsælar undanfarið en það sem gerir þessa mynd ólíka Bohemian Rhapsody og fleiri af svipuðum toga er að tónlistin er notuð sem hluti af framvindunni, þannig hún er nánast eins og söngleikur. „Já þetta er hin ágætasta skemmtun,“ segir Margrét Örnólfsdóttir handritshöfundur og fyrrum Sykurmoli. „Elton John er svona hljóðvist æsku minnar, en mér hefur alltaf fundist hann ferlega leiðinlegur. Mér finnst margt að þessari mynd, en margt í lagi. Aðalleikarinn syngur mjög vel, og er frábær í þessu hlutverki. En þetta er skrýtin mynd og það er margt ósamstætt í henni. Mér fannst ég vera horfa á margar mismunandi myndir.“

Ester Bíbí Ásgeirsdóttir segir að margar senur í myndinni hafi verið mjög tilkomumiklar. „Ég vissi ekki einu sinni að ég væri að fara á söngvamynd. Svo var hún fyndin, og rosa dramatísk.“ Þá fannst Ester það hallærislegt hvernig myndin kenni einungis ástlausri æsku Eltons Johns um fíkn og aðra erfiðleika hans. „Það er rosalega margt einfeldningslegt í dramanu,“ segir Margrét og tekur undir. „Það er verið að tyggja ofan í mann og útskýra hluti sem eru alveg augljósir.“

Bergsteinn Sigurðusson stýrði umræðum um Rocket Man í Lestarklefanum sem hægt er að sjá í heild sinni í spilaranum í haus færslunnar.

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Ógnandi fyrir hvíta miðaldra manninn“

Myndlist

„Steina hefur haft áhrif á okkur öll“

Menningarefni

Ástir trölla, rappari í sjálfskoðun og Róf

Norður Ameríka

Trump sendir Kim lagið Rocket Man á geisladisk