Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi
Þessi er klassískur en samt frekar furðulegur, hvers vegna ætti ég að vilja halda á fugli? Er ekki bara betra að hann fái að fljúga í skóginum með hinum vinum sínum? Það sem málshátturinn þýðir hins vegar er að betra er hið vissa og smáa en hið óvissa og mikla. Ef þú heldur á einum fugli ertu allavega viss um að hafa fugl þó svo að þú værir kannski til í að vera með fleiri. Nokkrar tegundir eru til af þessum málshætti. „Betri er ein kráka í hendi en tvær í skógi“ og „betri er einn haukur á hendi en tveir á flugi“ svo dæmi séu tekin. Þannig að vertu bara feginn að eiga eitt páskaegg, þó að þú værir kannski til í fleiri.
Ei er kálið sopið þótt í ausuna sé komið
Margir gætu líka kannast við þennan en hann þýðir að eitthvað sé ekki endilega eins auðvelt og maður gæti fyrst talið. Þótt kálið sé komið í ausuna þá gæti það enn þá dottið úr henni á leiðinni á diskinn, og þá færðu ekki að súpa það. Svekkjandi, ég veit.