Skrítnustu málshættirnir

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia

Skrítnustu málshættirnir

21.04.2019 - 11:30
Það fengu væntanlega ófáir ljúffengan málshátt með páskaegginu sínu í morgun. Málshættirnir eru eins ólíkir og þeir eru margir og sumir eru jafnvel stórfurðulegir, við tókum saman nokkra skrítna og skemmtilega og veltum fyrir okkur merkingu þeirra.

Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi
Þessi er klassískur en samt frekar furðulegur, hvers vegna ætti ég að vilja halda á fugli? Er ekki bara betra að hann fái að fljúga í skóginum með hinum vinum sínum? Það sem málshátturinn þýðir hins vegar er að betra er hið vissa og smáa en hið óvissa og mikla. Ef þú heldur á einum fugli ertu allavega viss um að hafa fugl þó svo að þú værir kannski til í að vera með fleiri. Nokkrar tegundir eru til af þessum málshætti. „Betri er ein kráka í hendi en tvær í skógi“ og „betri er einn haukur á hendi en tveir á flugi“ svo dæmi séu tekin. Þannig að vertu bara feginn að eiga eitt páskaegg, þó að þú værir kannski til í fleiri. 

Ei er kálið sopið þótt í ausuna sé komið
Margir gætu líka kannast við þennan en hann þýðir að eitthvað sé ekki endilega eins auðvelt og maður gæti fyrst talið. Þótt kálið sé komið í ausuna þá gæti það enn þá dottið úr henni á leiðinni á diskinn, og þá færðu ekki að súpa það. Svekkjandi, ég veit. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þetta kál er reyndar ekki komið í ausuna en gæti verið á leiðinni þangað.

Enginn verður óbarinn biskup
Við getum bara vonað að biskupar dagsins í dag þurfi ekki að þola barsmíðar áður en þeir taka við starfi sínu en þessi annars ágæti málsháttur þýðir að enginn komist á toppinn án þess að leggja hart að sér. 

Fleira er matur en feitt kjöt
Þótt þetta sé gamall málsháttur þá á hann einstaklega vel við í umræðu nútímans um veganisma og kolefnisfótspor. Það er auðvitað ekki bara matur í feitu kjöti, þú getur líka borðað grænmeti, baunir og ýmiss konar önnur matvæli án þess að hljóta af því varanlegan skaða. Enginn segir að páskalambið geti ekki verið páskahnetusteik, það er margt klikkaðra en það. 

Kominn er köttur í ból bjarnar
Það hljómar ekkert sérstaklega vel að hafa kött í bólinu, sérstaklega ef þú ert björn. Þessi þýðir að mannaskipti hafi orðið til hins verra eða að skyndileg hindrun hafi skotið upp kollinum.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Ghost Presenter
Það væri kannski ekki svo slæmt að hafa þennan í bólinu.

Skíts er von úr rassi
Þessi segir sig svo sem svolítið sjálfur en skemmtilegur er hann. Það er ekki hægt að búast við neinu nema óþverra af einhverjum sem er ómerkingur. Við mælum þó hins vegar ekki með því að dæma fólk og hluti aðeins af útlitinu einu saman. 

Víða er pottur brotinn
Án þess að hafa séð mikið af brotnum pottum í gegnum tíðina þá er merking þessa ágæta málsháttar sú að víða sé eitthvað að. Við erum víst fæst fullkomin. 

Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn
Nú er ekki víst að margir hafi pissað í skóinn sinn en þeir sem það hafa gert komust sennilega að því að skemmtunin í því var fljót að verða að töluverðum leiðindum. Upphaflega virðist málshátturinn gera ráð fyrir því að fólk hafi verið að pissa í skóna sína til að halda hita á tánum en það hafi hins vegar fljótlega snúist upp í frekar ógeðfellda leið til að hlýja sér. Við ættum sennilega að vera fegin að geta bara farið í ullarsokka í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay - pexels
Ekki pissa í skóna þína...