Skrifstofur fræðimanna verða gistiheimili

Mynd með færslu
 Mynd:

Skrifstofur fræðimanna verða gistiheimili

25.08.2014 - 15:38
Eigendur JL-hússins við Hringbraut hafa sótt um leyfi til að breyta skrifstofurými á fjórðu og fimmtu hæð hússins í gistiheimili. Umsókn um breytingarnar er skráð í fundargerð skipulagsstjóra Reykjavíkur. Mikil fræðastarfsemi er starfrækt í húsnæðinu sem til stendur að breyta.

Í fundargerð skipulagsstjóra frá 15. ágúst kemur fram að sótt hafi verið um að breyta húsnæðinu í gistiheimili í flokki tvö með að hámarki 201 gistirými í 51 herbergi. Tekið er fram aðrir eigendur í húsinu hafi gefið samþykki fyrir framkvæmdunum. Umsókninni var vísað áfram til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar og verður kynnt ráðinu á fundi þess á morgun. 

Í húsnæðinu, sem er í eigu fasteignafélagsins JL-holding, er starfrækt fjölbreytt fræðastarfsemi í undir merkjum Reykjavíkurakademíunnar og hafa rúmlega 60 sjálfstæðir fræðimenn, útgáfu- og fræðafélög aðsetur þar. Sólveig Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ReykjavíkurAkademíunnar, segir erfitt að hverfa frá eftir nærri 20 ára veru í húsinu, „Staðan er þannig að við eigum að vera komin út 31. október,“ segir hún.

„ReykjavíkurAkademían er ekki síður samfélag en rannsóknarstofnun þannig að þarna er hópur sjálfstætt starfandi fræðimanna sem þarf að athuga sinn gang og athuga hvort það sé náttúrulögmál að ReykjavíkurAkademían sé í bogadregnu húsi vestur í bæ, eða hvort hún geti átt sér framhaldslíf einhvers staðar annars staðar,“ segir Sólveig.

„Þetta er ekki vinnustaður þar sem fólk er ráðið og getur mætt hvert sem er - það skiptir máli fyrir svona dýnamískt samfélag að það sé í tengslum við Háskólann og samfélagið almennt,“ bætir Sólveig við. „Við förum ekkert auðveldlega í önnur sveitarfélög, til dæmis.“