Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skrifaði ekki undir skýrslu um miðhálendisþjóðgarð

04.12.2019 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Áætlanir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs eru ótímabærar. Þetta segir Bergþór Ólason, fulltrúi Miðflokksins í nefnd um um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Hann segir það útilokað fyrir ráðherra að vinna alla þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg sé.

Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands skilaði Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu sinni í gær. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytis og forsætisráðuneytis. Í skýrslunni koma fram tillögur um hvernig skuli standa að stofnun slíks þjóðgarðs. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra leggi fram frumvarp í vor sem byggist á tillögum nefndarinnar. Guðmundur Ingi segir að horft hafi verið til þeirra gagnrýnisradda sem komu fram frá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum í umsagnarferlinu. Bergþór Ólason, fulltrúi Miðflokksins í nefndinni, skrifaði ekki undir skýrsluna.

„Það eru nokkrir þættir sem liggja þar að baki,“ segir Bergþór. „Fyrst er það að segja að mér þykir áætlanir um stofnun miðhálendisþjóðgarðs vera alveg ótímabærar. Og það setur þessa vinnu í dálítið annað samhengi þegar ráðherra tilkynnir að hann ætli sér að leggja frumvarpið fram núna á vorþingi. Og þá horfir það þannig við mér að það sé nokkurn veginn útilokað að það sé fært fyrir hann að vinna alla þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er til að verkefnið geti orðið að veruleika, telji menn það skynsamlegt.“

„Ekki tímabært“

Þá gerir Bergþór athugasemdir við að áform um orkuvinnslu á svæðinu séu óljós, sveitarfélög sem eigi þar land hafi lýst miklum áhyggjum af gangi mála, auk þess sem ekki hafi tekist að ná utan um rekstur minni þjóðgarða hér á landi. Vilhjálmur Árnason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, skrifaði undir skýrsluna, en sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði stofnun þjóðgarðs kalla á mikinn undirbúning, og að meðal annars þyrfti sérstaklega að skoða orkunýtingu á svæðinu. 

„Eins og málið liggur núna mun allavega ég og félagar mínir í Miðflokknum að öllum líkindum taka hart til varna hvað það varðar að þetta sé ekki tímabært,“ segir Bergþór.