Skrifað á tímum brelluspegla internetsins

Mynd: Elena Mudd / RÚV

Skrifað á tímum brelluspegla internetsins

01.09.2019 - 14:00

Höfundar

„Í bókinni eru níu greinar sem allar fjalla um efni sem hefur verið Tolentino afar hugleikið undanfarin ár, þar á meðal nútímafemínisma, vímuefnanotkun, trú og margt fleira. Og yfir öllu þessu vofir internetið,“ segir Jóhannes Ólafsson um bók Jiu Tolentino, Trick Mirror.

Jóhannes Ólafsson skrifar:

Hver ert þú á netinu? Hver er hin fullkomna kona? Hvað er trú á 21. öldinni? Þessum spurningum ásamt ótal fleirum gerir bandaríska blaðakonan og rithöfundurinn Jia Tolentino tilraun til að svara í bókinni Trick Mirror: Reflections on self delusion, eða Brelluspegill: Hugleiðingar um sjálfsblekkingu. Trick Mirror hefur þegar vakið heilmikla athygli og umtal í fjölmiðlum vestanhafs, sem hampa henni í hástert. Þetta er fyrsta bók hinnar þrítugu Tolentino, sem er Bandaríkjamaður, fædd í Toronto í Kanada og foreldrar hennar eru filippseyskir innflytjendur. Hún er hæfileikaríkur höfundur, hefur skrifað fyrir ýmis blöð en starfar nú sem blaðakona hjá tímaritinu New Yorker, draumavinnustað hvers bandarísks rithöfundar. Margir hafa slegið Tolentino gullhamra - hún hefur verið kölluð Joan Didion okkar tíma, sögð besti ungi greinahöfundurinn í Bandaríkjunum í dag og jafnvel lykilrödd sinnar kynslóðar. Hvað sem það nú þýðir. Hún virðist í það minnsta vera að hreyfa við taugum samfélagsins vestanhafs og ná utan um ástand þess eins og það lítur út nú á dögum. 

Í Trick Mirror eru níu greinar sem allar fjalla um efni sem hefur verið Tolentino afar hugleikið undanfarin ár, þar á meðal nútímafemínisma, vímuefnanotkun, trú og margt fleira. Og yfir öllu þessu vofir internetið, áhrif þess á líf manna og sjálfsmynd. Internetið, algrím, öpp og önnur tæknileg kerfi móta og stýra lífi ótal margra í dag. Kerfi sem ómögulegt er að taka út fyrir sviga. Og jafnvel þótt einhverjir kjósi að lifa án þess eða til hliðar við það búum við nú öll í heimi sem er gegnsýrður og mótaður af þessari alltumlykjandi tengingu. Og það hlýtur að hafa einhver áhrif.  

Mynd með færslu
 Mynd: Jia Tolentino - RÚV
Bók Jiu Tolentino, Trick Mirror: Reflections on self delusion, eða Brelluspegill: Hugleiðingar um sjálfsblekkingu.

Skilin milli raunheims og netheims

Netið er hliðarveruleiki sem auðvelt er að líkja við hugmyndina úr kvikmyndunum um Fylkið, Matrix, þar sem til er eitthvað sem heitir raunverulegi heimurinn annars vegar og hins vegar eitthvað annað, eitthvert kerfi. Þetta skilrúm milli raunheims og netheims er greinilegt í dag. Það hefur mótað hegðun okkar og sjálfsmynd. Við horfum í þennan brelluspegil sem afskræmir okkur, gerir okkur að leikurum. Til þess að vera á netinu þarf maður að gera, segir Tolentino. Ef þú gerir ekkert á netinu, ertu þá til? Samfélagsmiðlar og umbunarkerfin sem þeir nota eru stöðugt að reyna að koma í staðinn fyrir umbunarkerfin sem eru til staðar utan netsins. Þetta hefur fyrirsjáanlegar afleiðingar; fólk einbeitir sér að ytra borðinu, prófílnum, útlitinu. Þess vegna eru allir svona fallegir og víðförlir á Instagram, yfirlýsingaglaðir og montnir á Facebook og það að merkja sig með réttsýnum skoðunum á Twitter er nánast orðið ígildi þess að vera pólitískur. 

Það er mjög auðvelt að líta út fyrir að hafa skoðun á netinu en fylgja henni ekki endilega eftir með virkum hætti. Internetið hefur aukið möguleika okkar á því að vita hluti á meðan möguleikar okkar á að breyta hlutum eru þeir sömu, eða jafnvel minni. Þetta hljómar eins og hræðsluáróður en Tolentino er meðvituð um að samfélög manna í gegnum ár og aldir hafa alltaf breyst í takt við hugmynda- og tækniþróun. Sókrates óttaðist að ritmálið myndi valda minnisleysi, átjándu aldar menn kvörtuðu yfir því að dagblöð myndu einangra okkur vitsmunalega og siðferðislega, skáldsagan átti að valda því að við - sérstaklega konur - ættum erfiðara með að skilja milli veruleika og skáldskapar. Og fólk hafði líka áhyggjur af útvarpinu, símanum, sjónvarpinu, tölvunum og nú internetinu. Rykið sem internetið þyrlaði upp hefur ekki sest. 

Munurinn er, segir Tolentino að við komumst ekki lengra. Með internetinu hefur kapítalismi ekkert frekara land til að brjóta til ræktunar en sjálfið. Hann étur allt, ekki bara vörur og vinnuafl heldur persónuleika, sambönd og athygli hvers og eins. Næsta skref er algjör samruni sjálfsins við markaðinn, þar sem hið andlega og líkamlega verður óaðskiljanlegt frá internetinu: martröð sem þegar hefur barið að dyrum. 

Raddir kynslóðar eiga að vera margar

Jiu Tolentino tekst vel að ná utan um samtímann í Trick mirror, hún kafar ofan í fjölmörg atriði sem ég næ ekki að stikla á hér og skrifar um það lipurlega. Það sem hún hefur fram að færa er svo sem ekkert nýtt og hún veit það sjálf en setur gagnrýni sína og hugleiðingar fram með skýrum hætti, um það hvað það er að vera hugsandi vera á tímum brelluspegla internetsins sem sýna allt í skökkum hlutföllum og ögra skynfærum okkar og dómgreind. Tolentino var í viðtali innt eftir svörum við því hvernig það væri að vera kölluð lykilrödd þúsaldarkynslóðarinnar og ég skil vel að hún kjósi að bera ekki svo stóran merkimiða utan á sér, enda eiga raddir kynslóðar að vera margar, segir hún. Með skrifum sínum, hvar sem þau birtast, segist hún heldur ekki vilja predika. Í hennar augum sé hún fyrst og fremst að túlka, og í skrifunum felist ekki einhvers konar vald eða rödd þess sem allt veit og fræðir úr háum turni. Fólk þarf sjálft að finna fyrir valdi til að gera tengingar upp á eigin spýtur og þekkingin þarf að koma neðan frá. Tónninn í skrifum Tolentino er í samræmi við þetta og ég kvitta sjálfur undir þessa speki - ef það er eitthvað sem við vitum á samtengdri gervihnattaröld (eins og er) þá er það einmitt það að ekkert virðist festast, staðreyndir leka ofan í holræsin og fólk finnur alltaf leið til að sanna allt og hrekja allt. 

En þar víkur sögunni að að stórri spurningu sem Jia Tolentino veltir fyrir sér: Til hvers að skrifa? Og það er viðeigandi að enda þessa pistlaröð mína um óskáldaðar bækur á einmitt þessum nótum. Hvaða merkingu hefur það að skrifa eitthvað niður á tímum þegar allir eru að tjá sig, allir eru að skrifa og allir geta gefið út í botnlausum miðli? Tolentino hefur eins og áður sagði verið líkt við Joan Didion, einn af mínum eftirlætis höfundum sem skrifaði ógrynni af óskálduðu efni, greinum og hugleiðingum sem potuðu í og krufðu samfélagið ekki svo löngu áður en internetið kom. Samanburðurinn er þess vegna athyglisverður. „Að reyna að skrifa,“ segir Tolentino, „er iðja sem byggist á trú sem þegar er vafasöm fyrir hefðbundna rithöfunda og enn vafasamari sé hún gerð að eins konar skilyrðislausu skylduboði fyrir alla á internetinu: sú trú að málið hafi áhrif, að það hafi virkni; sú trú að það sé í lagi eða gagnlegt eða jafnvel æskilegt að skrifa stöðugt niður það sem maður hugsar.“ Ég veit ekki svarið við þessum stóru vangaveltum sjálfur. En þegar ég les bækur, jafnvel renni bara augunum yfir kilina í bókahillum, heldur leitin áfram að svörum við spurningum sem ég man ekki - í bókum sem gefa vísbendingar um tilveru sem ég skil ekki. Við skulum svo endilega rífast um það á öllum miðlum með orðum, hvort orð skipti máli.