Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Skrautlegur ferill José Mourinho

epa05011194 Chelsea manager Jose Mourinho during the UEFA Champions League group G soccer match between Chelsea and Dynamo Kiev at Stamford Bridge in London, Britain, 04 November 2015.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA

Skrautlegur ferill José Mourinho

18.12.2015 - 21:02
Það fór allt í steik hjá Real Madrid eftir að Mourinho skrifaði undir langtímasamning við félagið og það sama gerist hjá honum og Chelsea stuttu síðar. Í báðum tilfellum fær Mourinho fúlgur fjár og getur róið á önnur mið. Fullyrt er að Mourinho fái nú 40 milljónir punda eða 8 milljarða króna í starfslokagreiðslur frá Chelsea. José Mourinho er einstaklega sigursæll þjálfari en ferillinn er jafnframt með eindæmum skrautlegur. Einhverra hluta vegna fer alltaf allt í steik á þriðja tímabilinu.

José Mário dos Santos Mourinho Félix fæddist í Setúbal í Portúgal 26. janúar 1963. Faðir hans, Felix, hafði lifibrauð sitt af fótbolta. Hann lék í markinu sem atvinnumaður í knattspyrnu, varði vítaspyrnu frá Eusébio í fyrsta leik þessa goðsagnakennda framherja en stýrði síðar nokkrum félagsliðum í Portúgal. Móðirin, Maria Julia, var grunnskólakennari. Sjálfur var Mourinho aldrei kallaður annað en Ze af vinum og vandamönnum. Frá barnsaldri var hann óopinber aðstoðarmaður pabba síns og lærði því í raun til knattspyrnustjóra frá blautu barnsbeini.

„Ég var 9 eða 10 ára þegar pabbi var rekinn á jóladag. Hann var knattspyrnustjóri og úrslitin höfðu verið óhagstæð. Liðið tapaði 22. desember og á jóladag. Í miðri jólamáltíðinni, hringdi síminn. Pabbi var rekinn.“

Pabbinn var vissulega rekinn á jóladag en Mourinho var 21 árs þegar það gerðist. José Mourinho lék með nokkrum minni háttar liðum á unga aldri, ýmist í vörn eða á miðjunni en var í raun aldrei neitt sérstaklega góður.

„Ég er greindur maður og vissi að ég næði ekkert lengra sem atvinnumaður í knattspyrnu. Ég var einfaldlega annarrar deildar leikmaður.“

Mourinho menntaði sig í fótboltafræðunum og stýrði samhliða ýmsum barna- og unglingaliðum þar til honum bauðst tækifæri til að verða túlkur fyrir Bobby Robson sem var nýtekinn við Sporting Lissabon. Robson komst fljótt að því að Mourinho kunni ýmislegt fyrir sér í knattspyrnu og bað hann um greina næsta andstæðing liðsins. Mourinho greip tækifærið og skilaði skýrslu sem Robson segir að hafi verið algjörlega fyrsta flokks. Hann hafi aldrei séð annað eins á ferlinum. Mourinho er þekktur fyrir feikilega nákvæman undirbúning og hann er ekki síst sérfræðingur í smáatriðum. Sálfræðihernaður er önnur sérgrein hans.

Vann með Bobby Robson og Van Gaal hjá Barcelona

Eftir að Robson var rekinn frá Sporting og tók við Porto fylgdi hinn ungi Mourinho með sem aðstoðarmaður. Mourinho fylgdi Robson svo til Barcelona og þar skildu leiðir. Robson hætti hjá Barcelona en Mourinho hélt áfram og hóf að vinna með Louis van Gaal sem aðstoðarþjálfari, þá aðeins 34 ára. Van Gaal lét Mourinho stýra aðalliðinu sem aðalþjálfari í minni keppnum, t.d. í Katalóníubikarnum árið 2000.

Kornungur knattspyrnustjóri

Fyrsta tækifærið sem aðalþjálfari féll honum svo í skaut árið 2000. Hann hafði tekið við sem aðstoðarþjálfari hjá Jupp Heynckes Benfica en þegar Heynckes var rekinn eftir fjóra leiki var komið að Mourinho. Hann entist þó aðeins í 9 leiki í starfi. Eftir sigur á erkifjendunum í Sporting lét hann reyna á trúlyndi forseta Benfica og bað um nýjan samning. Forsetinn neitaði og Mourinho hætti. Forseti Benfica hefur alla tíð iðrast.

Ástríða + Metnaður + Liðsheild + Áræðni = Árangur

Mourinho færði sig til Uniao de Leiria í júlí 2001. Liðið barðist í efri hluta portúgölsku deildarinnar þessa leiktíð, nokkuð sem var ekki alvanalegt á þeim bænum. Þetta gengi vakti athygli á þessum unga stjóra. Porto var á þessum tíma stórveldi í vanda. Liðið var í janúar 2002 í 5. sæti deildarinnar og lét þjálfara sinn fara. Mourinho var sóttur til Leiria og hófst mikið sigurtímabil Porto í kjölfarið. Fyrsta verk hans hjá Porto var að skrifa öllum leikmönnum liðsins bréf með grundvallarviðhorfum sínum.

„Héðan í frá verða allar æfingar, allir leikir, hver einasta mínúta í lífi ykkar að snúast um það eitt að verða sigurvegari. Það er ekkert sem heitir byrjunarliðsmaður. Ég þarfnast ykkar allra og þið þarfnist hver annars. Við erum liðsheild. Ástríða + Metnaður + Liðsheild + Áræðni = Árangur.“

Mourinho náði að stýra liðinu í þriðja sæti deildarinnar vorið 2002 en strax árið eftir vann liðið deildina, 11 stigum á undan Benfica. Sama ár, 2003, vann hann portúgalska bikarinn eftir sigur á Leiria og UEFA-keppnina eftir sigur á Celtic.

2004 kom svo stærsti sigurinn með Porto. Liðið varð aftur meistari í Portúgal en það sem vakti mesta athygli var sigur liðsins í Meistaradeild Evrópu. Sá árangur vakti athygli á Mourinho um gjörvalla Evrópu og stórlið Chelsea klófesti kappann.

Með óutfylltan tékka hjá Chelsea

Mourinho skrifaði undir himinháan samning við Chelsea og fékk nánast óútfylltan tékka til að kaupa leikmenn. Skilaboðin voru skýr: Chelsea ætlaði sér sigur í öllum keppnum. Mourhinho geislaði af sjálfstrausti á fréttamannafundi þar sem hann var kynntur til sögunnar.

„Ekki kalla mig hrokagikk en ég er Evrópumeistari og tel mig vera hinn einstaka.“

Strax á fyrsta tímabili sínu með Chelsea tókst liðinu að vinna enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í 50 ár. Chelsea setti um leið stigamet í deildinni og fékk á sig færri mörk en nokkurt annað lið. Leikurinn var endurtekinn árið eftir og Mourinho vann sinn fjórða meistaratitil í röð. Orð og æði Mourinho framleiddu fyrirsagnir í fjölmiðlum og hann átti í stöðugu orðaskaki við aðra knattspyrnustjóra, einkum Rafael Benitez, Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger.

Sjarmatröll sem allir elska

Leikmenn eins og Didier Drogba, Frank Lampard og John Terry blómstruðu undir stjórn Mourinho og hann virtist ná því besta út úr öllum leikmönnum liðsins. Patrick Barclay höfundur bókarinnar Anatomy of a Winner segir að Mourinho sé í raun tveir menn. Sjarmatröllið sem allir elska og hörkutólið sem ver sjálfan sig, og einkum og sérílagi leikmenn liðsins, með kjafti og klóm.

„Ekki vanmeta glæsileikann sem hann nýtir sér óspart í klefanum. Leikmennirnar hafa mestan áhuga á konum, peningum og fötum. Allir hafa mestan áhuga á Mourhinho, leikmennirnir og ekki síður kærustur þeirra.“

Sjálfur var Mourinho ekki í vafa um hver ætti að leika hann í Hollywood kvikmynd - George Clooney. Og frúin var sammála. Andlitið á Mourinho selur og það hefur verið notað í auglýsingaherferðir hjá fyrirtækjum eins og Samsung, American Express, Braun, Jaguar og Adidas.

Roman Abramovic vildi sóknarbolta en Mourinho úrslit

Veturinn 2005-2006 virtist hins vegar súrna í samskiptum Mourinho og hins vellauðuga eiganda Chelsea, Roman Abramovic. Hinn vellauðugi Rússi ákvað að kaupa fótboltaklúbb eftir að hafa séð Manchester United vinna Real Madrid á Old Trafford í mars 2003 með 4 mörkum gegn 3. Svona fótbolta vildi Abramovic sjá en Mourinho færði honum úrslit í oft tilþrifalitlum leikjum. Það segir reyndar sitt um litla þekkingu Roman Abramovic á knattspyrnu að Real Madrid hafði unnið í fyrri leiknum 3-1 og sigur þeirra var því aldrei í verulegri hætti á Old Trafford.

Mourinho sjálfur sagði hins vegar að það væri einungis annað af tvennu sem gæti orðið til þess að hann hætti með liðið. Að Chelsea myndi ekki bjóða honum nýjan samning eða þeir myndu hreinlega reka hann. Mourinho ætlaði ekki að hætta sjálfviljugur.

Þrátt fyrir þessar vangaveltur vann Chelsea deildarbikarinn þennan vetur og fylgdi því eftir með sigri í ensku bikarkeppninni. Spennan milli Mourinho og Abramovic minnkaði hins vegar ekki og Abramovic brá á það ráð að fá Ísraelann Avram Grant sem íþróttastjóra, þvert á vilja Mourinho. Til að strá salti í sárin fékk Grant sæti í stjórn Chelsea. Kaupin á Andriy Shevchenko eru svo sérkapítuli út af fyrir sig. Abramovic langaði í hann og keypti hann en Mourinho hafði ekki not fyrir þessa öldruðu stjörnu.

Eggin og eggjakökurnar

Mourinho var spurður að því hvort hann fengi ekki nægilegt fjármagn til að byggja upp sterkt lið. Hann sagði að þetta væri eins og með egg og eggjakökur. Án eggja verði ekki til nein eggjakaka. Gæði eggjakökunnar velti á gæðum eggjanna.

Ekki var hann þó rekinn þetta vorið. Tímabilið 2007-2008 fór rólega af stað hjá liðinu og 20. september var komið að endalokunum. Hann hvarf úr starfi með hinu loðna orðalagi að hann og stjórn Chelsea hefðu komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að hann hætti. Það þýðir á mannamáli að hann var rekinn. Hann lét af störfum sem sigursælasti stjórinn í sögu Chelsea.

Áframhaldandi velgengni á Ítalíu

Draumurinn hjá Mourinho var að snúa aftur og taka við Barcelona. Hann kom vissulega til álita og mætti í starfsviðtal. Honum var reyndar sagt að Johan Cruyff réði því hver yrði næsti stjóri hjá Barcelona þótt formlega væri goðsögnin valdalaus. Valið stóð á milli Mourinho og Pep Guardiola og niðurstaðan varð sú að Guardiola var ráðinn. Mourinho varð æfur og sagði forsetanum Laporta að Barcelona væri að gera mikil mistök. Mourinho hefur aldrei fyrirgefið Barcelona þetta og frá þessum tíma hefur hann verið með Guardiola á heilanum.

Eftir þetta skipbrot stefni hugur Mourinho til Ítalíu og þegar hann tók við Internazionale á Ítalíu í júní 2008 talaði hann ítölsku reiprennandi. Rino Gattuso hjá AC Milan sagði þetta með ólíkindum. „Hann talar betri ítölsku en ég og þó er ég fæddur á Ítalíu.“ Mourinho var stöðugt fjölmiðlafóður á Ítalíu og var það ekki síst Claudio Ranieri forveri hans hjá Chelsea sem fékk að kenna á því en hann var á þessum tíma við stjórnvölinn hjá Juventus.

„Ég lærði ítölsku í 5 tíma á dag í marga mánuði til að tryggja góð samskipti við leikmenn, fjölmiðla og aðdáendur. Ranieri var í 5 ár á Englandi og átti í vandræðum með að bjóða góðan dag á ensku.“

Mourinho varð ítalskur meistari strax á fyrsta ári og veturinn 2009-2010 bætti hann enn um betur. Inter vann þá ítalska meistaratitilinn, ítalska bikarinn og kórónaði árið með því að bera sigur úr býtum í Meistaradeild Evrópu. Mourinho var búinn að vinna allt á aðeins tveimur tímabilum með Inter. Úrslitaleikurinn fór fram á Bernabeu í Madrid og Inter lagði Bayern Munich undir stjórn Van Gaal með 2 mörkum gegn engu. Í undanúrslum hafði Inter slegið út Barcelona og Pep Guardiola. Eldgosið í Eyjafjallajökli varð til þess að leikmenn Barcelona þurftu að ferðast til Ítalíu í rútu. Þeir virtust þreyttir og töpuðu 3-1. Mourinho og Inter pökkuðu í vörn í seinni leiknum í Barcelona og komust í úrslitaleikinn þótt þeir hefðu aðeins átt eitt skot á markið í seinni leiknum. Mourinho vann og Guardiola tapaði.

Strax fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni var farið að orða hann við Real Madrid, sem enn eina ferðina var í basli og vantaði þjálfara. Mourinho gaf í skyn að hann væri á leið til Madrídar eftir sigurinn í Meistaradeildinni þegar hann sagðist vera dapur því þetta hefði nánast örugglega verið síðasti leikurinn hans sem stjóri Inter. Barcelona hafði valið Pep Guardiola fram yfir hann og nú vildi hann sanna sig hjá erkifjendunum í Real Madrid.

Dýrasti þjálfari sögunnar

28. maí var hann svo kynntur til sögunnar sem nýr stjóri Real Madrid og mun spænska liðið hafa greitt Inter svimandi fjárhæð til að losa Mourinho undan samningi. Upphæðin hefur þó aldrei verið gerð opinber. Hann gerði 4 ára samning og átti að lyfta Madrid aftur í hæstu hæðir.

Ferillinn hjá Madrid átti eftir að verða skrautlegur. Hann steinlá í fyrsta El Classico leiknum gegn Barcelona 5-0 og fékk sekt þegar hann virtist skipa Xabi Alonso og Sergio Ramos að fá viljandi gult spjald til að fá leikbann í leik sem skipti ekki máli frekar en að eiga á hættu að missa af mikilvægum leik. Hann vann þó spænska Konungsbikarinn á fyrsta árinu og var það fyrsti titill liðsins í þrjú ár.

Vorið 2012 vannst spænski meistaratitillinn í fyrsta sinn í fjögur ár og setti liðið met í fjölda sigra í sögu spænsku deildarinnar og fékk fleiri stig en nokkurt annað lið í Evrópu. Sigur í Meistaradeildinni lét hins vegar á sér standa.

Langtímasamningur og allt fór í steik

Eftir þessa leiktíð skrifaði hann undir nýjan 4 ára samning við Madrid. Veturinn eftir fór hins vegar að halla undan fæti. Samband hans við stjörnur liðsins súrnaði, sérstaklega við fyrirliðann Iker Casillas og Christiano Ronaldo. Þá potaði hann í augað á Tito Vilanova, þá aðstoðarþjálfara Barcelona, þegar illa gekk í El Classico. Eftir tap gegn Atletico Madrid í úrslitaleik Konungsbikarsins rak Florentino Perez hann, eða eins og það var orðað: Hann lét af starfi „eftir sameiginlega ákvörðun hans og stjórnar Real Madrid.“

Það fór allt í steik rétt eftir að Mourinho skrifaði undir langtímasamning. Mourinho fékk fúlgur fjár og gat róið á önnur mið. Sagt er að draumur hans hafi verið að taka við Manchester United en þeir ákváðu að ráða David Moyes.

Hinn einstaki varð sá ánægði hjá Chelsea

Í júní 2013 tók hann aftur við Chelsea. Hann hélt áfram þar sem frá var horfið og yfirlýsingar hans í fjölmiðlum vöktu mikla athygli. Þegar hann kom fyrst til Chelsea sagðist hann vera hinn einstaki. Nú sagðist hann vera sá ánægði.

Chelsea vann þó ekkert þetta árið og varð í 3. sæti deildarinnar. Á síðustu leiktíð var Chelsea hins vegar með besta lið Englands. Liðið vann deildina nokkuð sannfærandi og sigraði líka í deildarbikarnum. Mourinho var yfirlýsingaglaður að vanda og sagði Arséne Wenger sérfræðing í mistökum. „Ef ég væri titlalaus eftir 8 ár hjá Chelsea myndi ég koma mér burt og snúa aldrei aftur.“

Mourinho gerði nýjan samning í ágúst sem batt hann hjá félaginu til 2020. Liðið náði þó aðeins 11 stigum í fyrstu 12 leikjunum og féll úr leik í deildarbikarnum gegn Stoke.

Hegðun hans innan vallar sem utan varð stöðugt undalegri. Eftir 1-3 tap gegn Liverpool hafði Mourinho aldrei þessu vant ekkert að segja.

Eftir tap í 9 af 16 leikjum sínum í deildinni var hann svo rekinn. Ástæðan var augljóst sundurlyndi milli hans og leikmanna að sögn Michael Emenalo hjá Chelsea. Mourinho stýrði Chelsea í síðasta skipti gegn Leicester City þar sem liðið tapaði með 2 mörkum gegn engu. Hann var harðoður í viðtali eftir leikinn og sakaði leikmenn um að hafa svikið sig og vinnu sína hjá Chelsea. Öllu öðru var um að kenna en honum sjálfum.

Í annað sinn á stuttum tíma var Mourinho rekinn skömmu eftir að hann gerði langtímasamning. Einhverra hluta vegna fór allt í steik rétt eftir langtímasamning og Mourinho gekk á brott með fullar hendur fjár. Fullyrt er að Mourinho fái samninginn greiddan upp í topp. Það eru 40 milljónir punda eða 8 milljarðar króna. Þetta mun vera ástæða þess að Roman Abramovich rak hann ekki fyrr. Þegar Abramovich ætlaði að reka hann í haust voru skilaboðin frá Mourinho skýr.

„Borgaðu mér upp í topp og ég fer.“

Eins og rakið var í fréttaskýringu fyrir rúmri viku fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis hjá Mourinho og Chelsea í haust. Michael Cox sagði í Guardian að ömögulegt væri að benda á meginvandamálið hjá Chelsea því í raun væri allt að. Markvörðurinn Thibaut Courtois var frá vegna meiðsla lungann úr vetrinum. Vörnin hefur verið hrikaleg í vetur og aðeins fimm neðstu lið deildarinnar hafa fengið á sig fleiri mörk. Varnarleikur hefur jafnan verið aðalsmerki liða undir stjórn Josés Mourinho en ekki í haust.

Hazard spilað 27 leiki án þess að skora

Nemanja Matic og Cesc Fàbregas léku óaðfinnanlega saman framan af síðasta keppnistímabili en hafa í vetur ekki verið svipur hjá sjón. Diego Costa virkar áhugalítill og jafnvel meiddur í framlínunni og Eden Hazard hefur spilað 27 leiki í röð án þess að skora mark. Það er einstakt hjá manni sem valinn var leikmaður ársins 2014. Í heild hefur liðið skorað helmingi færri mörk í haust en á sama tíma í fyrra. Costa hefur ekki verið svipur hjá sjón en í fyrra komu mörkin á færibandi. Eden Hazard, Loïc Rémy, Falcao og Pedro hefur öllum verið fyrirmunað að skora á þessari leiktíð. Eini ljósi punkturinn í liðinu hefur verið Willian en mörk úr aukaspyrnum hafa verið sérgrein hans.

Leikmenn einfaldlega andlega og líkamlega búnir á því

Michael Cox segir að þegar allt sé í steik á öllum sviðum sé erfitt að kenna tæknilegum eða taktískum áherslum um slæmt gengi liðsins. Leikmenn séu einfaldlega andlega og líkamlega búnir á því. Þetta hefur reyndar frekar verið regla en undantekning hjá liðum undir stjórn Josés Mourinho. Þegar hann var kynntur til leiks öðru sinni sem knattspyrnustjóri Chelsea árið 2013 benti hann réttilega á að árangurinn kæmi venjulega í ljós hjá liðum undir hans stjórn á öðru ári. Þetta var raunin hjá Porto, Inter, Real Madrid og bæði skiptin hjá Chelsea. Hann lét hins vegar ósagt að hann hefur aldrei unnið titil á þriðja ári. Hjá Porto og Inter reyndi aldrei á þetta þriðja ár, því hann yfirgaf þessi lið fyrir önnur stærri. Hjá Real Madrid og í báðum tilvikum hjá Chelsea hafa liðin lent í miklum vandræðum á þriðja ári. Í öllum tilvikum hefur hann verið rekinn.

Terry og Ivanovic spiluðu hverja einustu mínútu

Rætt hefur verið um að leikmenn verði einfaldlega þreyttir á þessum sérlundaða knattspyrnustjóra en þeir verða ekki síður líkamlega örmagna á endanum. Mourinho er vanur að keyra á sama mannskapnum í öllum leikjum og síst vill hann breyta vörninni. John Terry og Ivanovic spiluðu hverja einustu mínútu á síðasta keppnistímabili og Hazard byrjaði hvern einasta leik og var aldrei tekinn af velli nema einstaka sinnum í blálokin. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að þessir tilteknu leikmenn hafa virkað örþreyttir og útkeyrðir í haust. Diego Costa hefur spilað hálfmeiddur síðustu 18 mánuðina. Það er lýjandi til lengdar þótt eitthvað virðist líka vera að angra hann á andlega sviðinu.

Matic og Fàbregas ekki svipur hjá sjón

Því má ekki gleyma að Chelsea fataðist flugið eftir áramót á síðasta keppnistímabili þótt liðið hafi unnið deildina nokkuð örugglega. Helsta breytingin þá var spilamennska Matic og Fàbregas á miðjunni. Framan af voru þeir langöflugasta miðjuparið í deildinni en verulega fór að draga af þeim þegar leið á tímabilið. Í haust hafa þeir varla verið svipur hjá sjón. Í ofanálag hefur Fàbregas ekki sömu varnarskyldum að gegna og Matic. Hann er með lungann af varnarvinnunni á sínum herðum og því eru aldraðir varnarmenn oft berskjaldaðir. Ramires hefði líklega verið notaður oftar á miðsvæðinu en hann hefur verið frá vegna meiðsla.

Mourinho fann ekki rót vandans

Mourinho virtist ráðalaus og það hlaut að enda með því að eigandinn, Roman Abramovich missti þolinmæðina. Eins og spáð var í vikugamalli fréttaskýringi réðust örlög Mourinho eftir leikinn gegn Leicester. Niðurstaðan var sú að Mourinho var látinn taka pokann sinn. Ástæðan var augljóst sundurlyndi milli hans og leikmanna að sögn forsvarsmanna Chelsea.

 

Tengdar fréttir

Íþróttir

Allt í steik hjá Chelsea