Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skotar andvígir sjálfstæði

15.03.2017 - 02:15
epa05846270 The Union Flag (L) and the Saltire, the national flag of Scotland (R), fly over Whitehall in London, Britain, 13 March 2017.  Scotland's First Minister Nicola Sturgeon announced during a speech 13 March that she will seek permission for a
 Mynd: EPA
Meirihluti Skota er á móti því að Skotland sækist eftir sjálfstæði, miðað við nýja könnun sem verður birt í breska dagblaðinu Times í fyrramálið. Ef aðeins er tekið mið af þeim sem eru ákveðnir vilja um 57 prósent aðspurðra að Skotland verði áfram hluti af Bretlandi, en tæp 44 prósent vilja sjálfstæði. 

Könnunin var framkvæmd af breska fyrirtækinu YouGov sem hefur gert reglulegar kannanir frá því í fyrra. Miðað við þrjár síðustu kannanir á undan þeirri sem birt verður á morgun hefur óákveðnum fjölgað. Um 16 prósent segjast ekki vita afstöðu sína til þess hvort Skotland eigi að lýsa yfir sjálfstæði. 

Niðurstöðurnar eru nokkuð frábrugðnar könnun sem gerð var fyrir skosku sjónvarpsstöðina STV fyrr í mánuðinum. Þar voru tekin saman svör þeirra sem sögðust allvissir um að þeir greiði atkvæði komi til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði. 47 prósent svöruðu spurningunni um sjálfstætt Skotland játandi en 46 prósent voru á móti því.

Skoski þjóðarflokkurinn sækist eftir því að fá að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað við Bretland í kjölfar Brexit-atkvæðagreiðslunnar svokölluðu í fyrrasumar. Þá kusu Bretar að segja sig úr Evrópusambandinu, en Skotar voru andvígir því. Nicola Sturgeon, formaður þjóðarflokksins og fyrsti ráðherra Skotlands, segir forsendur frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 2014, þar sem 55 prósent Skota kusu gegn sjálfstæði, nú brostnar og því kominn tími á nýja. Talið er að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, taki fyrir nýja skoska þjóðaratkvæðagreiðslu.

Guardian hefur eftir Angus Robertson, þingmanni Þjóðarflokksins, að flokkurinn sé tilbúinn að sleppa kröfunni um þjóðaratkvæði ef breska ríkisstjórnin samþykkir að berjast fyrir áframhaldandi veru Skotlands á viðskiptamarkaði ESB.