Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Skortur verði á hrefnukjöti í vetur

09.10.2014 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Hrefnuveiðar hafa gengið illa það sem af er veiðitímabili. Hrefnuveiðmaður sér fram á að ekki verði til hrefnukjöt í vetur.

Hrefnuveiðitímabilinu í ár líkur um næstu mánaðarmót. Aðeins ein útgerð er við hrefnuveiðar í ár, en þær voru þrjár í fyrra. Heimilt er að veiða 229 dýr. „Hún hefur gengið hálf brösulega í sumar hjá okkur,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP Útgerða. „Þetta eru ekki nema 22 dýr sem við höfum fengið, samanborið við 36 dýr í fyrra. Það er ekki nóg og við getum verið að veiða til 30. október og komum til með að halda því úti, en eins og veðrið hefur verið í haust þá eru ekki miklar líkur á að við getum bætt miklu við.“

Gunnar segir að allt hrefnukjöt fyrirtækisins sé selt hér á landi, í verslanir og veitingahús. Hann sér hins vegar fram á að vegna dræmrar veiði í sumar, verði skortur á hrefnukjöti í vetur. Hann telur að hitastig sjávar í Faxaflóa og mikil makrílgengd setji strik í reikninginn. „Það er bæði búið að vera hálf lélegt sumar hvað veður varðar og sjóveður og síðan er auðvitað minnkandi hrefna í Faxaflóa. Við höfum verið að sækja svolítið á hann í sumar og suður af Sandgerði.“

Gunnar telur að ástæður fyrir færri hrefnum geti verið minna æti. „Við höfum heyrt að því að það sé meiri hrefna fyrir norðan, þannig að við verðum kannski að skoða það á næsta ári.“